Fótbolti

„Þrífst í hlut­verki þar sem ég þarf að taka á­byrgð“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ingibjörg Sigurðardóttir fagnar eftir að hafa skorað í síðasta landsleik Íslands; 3-2 tapi fyrir Frakklandi á útivelli.
Ingibjörg Sigurðardóttir fagnar eftir að hafa skorað í síðasta landsleik Íslands; 3-2 tapi fyrir Frakklandi á útivelli. getty/Alex Nicodim

Ingibjörg Sigurðardóttir kveðst stolt af því að bera fyrirliðabandið hjá íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta í næstu tveimur leikjum þess. Hún segist eflast með aukinni ábyrgð.

Ingibjörg verður fyrirliði Íslands í leikjunum gegn Noregi og Sviss í Þjóðadeildinni. Landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir er fjarri góðu gamni vegna meiðsla.

„Tilfinningin er mjög góð og líka smá ógnvekjandi. En ég er bara spennt,“ sagði Ingibjörg á blaðamannafundi í Þróttaraheimilinu í dag.

Ingibjörg hefur myndað fyrirliðateymi íslenska liðsins undanfarin misseri ásamt Glódísi og Selmu Sól Magnúsdóttur. 

„Þetta er mikilvægt og fyrir mér er þetta eitt það stærsta sem maður getur gert; að vera fyrirliði í landsliðinu. Og þess vegna tek ég þessu mjög alvarlega og vil gera það vel. En síðan finn ég enga pressu heldur,“ sagði Ingibjörg.

„Ég er búin að vinna mjög þétt með Selmu og Glódísi lengi og við erum búnar að vinna vel saman sem teymi. Ég veit að ég þarf að vera akkúrat eins og ég er búin að vera síðustu mánuði og ár með landsliðinu. Þetta er mikill heiður og ég er mjög stolt af því.“

Ingibjörg segir að það sé stórt fyrir sig að vera fyrirliði landsliðsins.

„Ég þrífst í hlutverki þar sem ég þarf að taka ábyrgð og stýra og leiða hópinn. Þess vegna er þetta mjög stórt fyrir mig og ég er mjög spennt að sjá hvernig ég næ að tækla þetta og ég ætla að undirbúa mig vel fyrir það. Síðan er þetta líka stórt fyrir alla í kringum mig líka. Fjölskyldan er búin að fylgja mér mjög lengi þannig að þetta er örugglega stærra fyrir þau en mig sjálfa þannig ég er bara spennt fyrir þessu,“ sagði Ingibjörg.

Ingibjörg er næstleikjahæst í íslenska hópnum með sjötíu landsleiki.getty/Alex Nicodim

Grindvíkingurinn brá fyrir sig norsku á blaðamannafundinum enda lék hún þar í landi með Vålerenga og á norskan kærasta.

Ingibjörg leikur í dag með Brøndby í Danmörku en hún gekk í raðir liðsins í september síðastliðnum.

Leikur Íslands og Noregs fer fram á AVIS-velli Þróttar í Laugardalnum klukkan 16:45 á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×