Innlent

Ekki sjálf­sögð krafa að fara inn á hættu­svæði

Árni Sæberg skrifar
Sjálfboðaliðar björgunarsveita verða Grindvíkingum innan handar í dag, sem endranær.
Sjálfboðaliðar björgunarsveita verða Grindvíkingum innan handar í dag, sem endranær. Vísir/Vilhelm

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur tekið ákvörðun um að hleypa afmörkuðum hópi Grindvíkinga inn í bæinn í dag. Búið er að hafa samband við alla þá sem mega fara að sækja verðmæti. „Vakin er athygli á því að það er ekki sjálfsögð krafa að fara inn á hættusvæði sem hefur verið rýmt af öryggisástæðum.“

Þetta segir í tilkynningu frá Úlfari Lúðvíkssyni, lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Þar segir að aðkomuleið fyrir íbúa til verðmætabjörgunar í dag verðir einungis um Grindavíkurveg frá Reykjanesbraut. 

Heimildin taki til 130 fasteigna í Grindavík og aðgerðin hefjist klukkan 9:00. Eftir klukkan 15 í dag verði fyrirtækjum hleypt inn á svæðið. 

„Ítrekað er að þeir einir fara inn í Grindavík sem aðgerðastjórnin í Reykjanesbæ hefur haft samband við símleiðis. Samhliða þessu er viðbragðsaðilar í sérverkefnum. Vel gekk að hringja í þá íbúa sem eiga þess kost að fara til Grindavíkur í dag.“

Þá er í tilkynningu vakin athygli á því að það er ekki sjálfsögð krafa að fara inn á hættusvæði, sem hefur verið rýmt af öryggisástæðum. Fyrst og fremst þurfi að huga að öryggi viðbragðsaðila, sem flestir séu sjálfboðaliðar. „Þeirra öryggi þarf ávallt að tryggja.“

Til athugunar fyrir íbúa:

  • Ekki fara ef þú þarft ekki nauðsynlega að fara
  • Aðeins verður leyfi fyrir einn aðila að fara inn á svæðið, fyrir hvert heimili
  • Skráið niður lista yfir það sem þið hyggist sækja áður en lagt er af stað
  •  Munið eftir húslykli
  • Búr fyrir gæludýr ef þörf er á
  • Poka eða annað undir muni
  • Íbúar hafa stuttan tíma inni á heimilinu.
  • Þau sem fara mega ekki vera með bráðaofnæmi fyrir dýrum því það verða gæludýr með í för í bakaleiðinni.
  • Þetta er eingöngu til þess sækja mjög mikilvæga hluti s.s. gæludýr, lífsnauðsynleg lyf, hugsanlega vegabréf eða aðra ómissandi hluti fyrir heimilisfólk
  • Mjög mikilvægt er að allir sem koma að þessari aðgerð hlýði vandlega öllum fyrirmælum lögreglu sem stýrir þessari aðgerð og virði tímamörk.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×