Handbolti

Kú­vending á raunum Viggós sem gæti leikið með lands­liðinu

Aron Guðmundsson skrifar
Viggó Kristjánsson í leik með íslenska landsliðinu
Viggó Kristjánsson í leik með íslenska landsliðinu VÍSIR/VILHELM

Svo gæti vel verið að Viggó Kristjáns­son, leik­maður Leipzig, geti beitt sér í komandi lands­leikjum ís­lenska lands­liðsins í hand­bolta þrátt fyrir að hann hafi verið að glíma við meiðsli. Hann gerir nú allt sem í sínu valdi stendur til þess að verða klár því hann veit hversu mikil­vægir þessir leikir eru upp á fram­haldið hjá ís­lenska lands­liðinu.

Ís­land tekur á móti lands­liði Fær­eyja í tveimur æfingar­leikjum í Laugar­dals­höllinni hér heima. Sá fyrri fer fram í kvöld á meðan að seinni leikurinn fer fram á laugar­daginn kemur. Um er að ræða mikil­væga leiki í undir­búningi liðsins fyrir EM í Þýska­landi í upp­hafi næsta árs. Fyrstu leiki liðsins undir stjórn Snorra Steins Guð­jóns­sonar.

„Hið upp­haf­lega plan hefur tekið smá breytingum,“ segir Viggó í sam­tali við blaða­mann en í upp­hafi verk­efnisins var greint frá því að Viggó myndi ekki spila með liðinu vegna meiðsla sem hafa verið að hrjá hann

„Sjúkra­þjálfurunum hefur tekist að út­búa spelku á puttann sem er meiddur. Við höfum því verið að skoða málin, prófa okkur á­fram. Þannig hin upp­haf­legu plön gætu breyst.“

Viggó Kristjánsson í kröppum dansi með landsliðinuVÍSIR/VILHELM

Þannig að við gætum jafn­vel séð þig innan vallar í þessum komandi æfingaleikjum?

„Ég vona það. Þetta lítur vel út með þessa spelku. Ég búinn að láta að­eins reyna á hana á síðustu æfingum. Ef þetta gengur upp þá vonast ég til þess að geta verið eitt­hvað með um helgina.“

Undan­farnar þrjár vikur hefur Viggó verið að glíma við meiðsli á vísi­fingri skot­handar sinnar.

„Það er erfitt að út­skýra þessi meiðsli en það eru ein­hver bönd slitin í þessum fingri. Ég hef náð að djöflast í gegnum þetta síðustu vikur úti með Leipzig. Það var gott að fá nokkurra daga hvíld fyrir þetta verk­efni.

Þá er að sama skapi gott að fá þessa spelku. Hún virðist hjálpa og styðja við þetta. Ég bind vonir við að þetta muni allt þróast í rétta átt á næstu dögum og vikum.“

Snorri að koma vel inn í hlutina

Hann er spenntur fyrir komandi tímum með lands­liðinu undir stjórn nýja lands­liðs­þjálfarans, Snorra Steins Guð­jóns­sonar.

„Hann er að koma inn með nýjar út­færslur, bæði hvað varðar sóknar- og varnar­leik okkar. Við höfum ekki náð að fara yfir mikið á þessum stutta tíma en maður sér strax að það eru að koma inn á­herslu­breytingar hvað varðar taktík í sókn og líka eitt­hvað varnar­lega. Þetta er bara spennandi.“

Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari Íslands Vísir/Vilhelm

Honum lýst vel á nýja lands­liðs­þjálfarann.

„Jú, líst bara vel á hann,“ segir Viggó hlæjandi. „Svo verðum við bara að sjá hvað hann spilar mér mikið. Nei að öllu gamni slepptu líst mér bara vel á hann. Hann er strax byrjaður að pota í okkur varðandi smá­at­riði sem við getum lagað hér á æfingum. Ég fíla það. Hann er að koma mjög vel inn í þetta hingað til."

Afar mikilvægur tímapunktur

Ís­lenska lands­liðið fær, líkt og fyrri ár, ekki mikinn tíma til að stilla saman strengi fyrir komandi Evrópu­mót í Þýska­landi í janúar. Viggó er þaul­reyndur lands­liðs­maður og veit hversu mikil­vægir þessir dagar, sem ís­lenska lands­liðið á saman núna, eru upp á fram­haldið að gera.

„Þessir dagar eru mjög mikil­vægir og því er ég að reyna gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að geta tekið þátt í þessum leikjum. Það hefði verið slæmt að missa út þessa viku. Við eigum fáa daga saman og erum því að reyna fara yfir þessi at­riði sem Snorri vill breyta og laga. Við þurfum að nýta tímann vel. Spila þessa leiki vel og þá getum við leyft okkur að halda bjart­sýnir inn í janúar.

Þakkar Rúnari traustið

Viggó kemur fullur sjálfs­trausts í þetta lands­liðs­verk­efni því þó að hann hafi verið að spila meiddur undan­farnar vikur hefur hann verið einn af bestu mönnum þýska úr­vals­deildar­liðsins Leipzig.

Þar spilar Viggó undir stjórn Ís­lendingsins Rúnars Sig­tryggs­sonar sem tók við liðinu á síðasta tíma­bili.

Rúnar á hliðarlínunni í leik Leipzig

„Ég er bara heppinn að hafa fengið Rúnar sem þjálfara í fyrra. Ég þekkti hann þannig séð ekkert fyrir þann tíma. Hann hefur gefið mér mikið traust frá því að hann tók við þjálfara­stöðunni og ég hef reynt að nýta mér það.

Tíma­bilið í ár hefur verið smá brös­ótt. Við vorum ó­heppnir í byrjun með að tapa stigum en höfum náð að rétta úr kútnum síðustu vikurnar og þurfum að halda á­fram á sömu braut.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×