Innlent

Þremur bjargað af svölum í­búðar eftir að eldur kom upp í hlaupa­hjóli

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Slökkviliðið segir íbúðina gjörónýta.
Slökkviliðið segir íbúðina gjörónýta. Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu

Viðbragðsaðilar á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðir til klukkan 2:15 í nótt vegna elds á 3. hæð í fjölbýlishúsi. Um talsverðan eld var að ræða og mikinn reyk, segir í yfirlit lögreglu yfir verkefni næturinnar.

Nánari upplýsingar er að finna á Facebook-síðu slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu en þar er greint frá því að íbúðin hafi verið alelda og að þremur einstaklingum hafi verið bjargað af svölum íbúðarinnar.

Íbúðin er sögð „gjörónýt“ en eldurinn virðist hafa kviknað útfrá rafhlaupahjóli sem verið var að hlaða og vill slökkviliðið ítreka að fólk noti rétt hleðslutæki fyrir hjólin og að þau séu helst ekki hlaðin nema utan íbúðar og á meðan einhver er vakandi yfir þeim.

Í yfirliti lögreglu er einnig greint frá því að tilkynning hafi borist um grunsamlegar mannaferðir í kringum bifreiðar fyrir utan fyrirtæki í Vesturbænum. Viðkomandi sagðist hins vegar hafa verið að æfa „parkour“ og taldi lögregla það skýra háttalag hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×