Fótbolti

Willum Þór á skotskónum á meðan Albert og fé­lagar voru kjöl­dregnir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Willum Þór skoraði í öruggum sigri.
Willum Þór skoraði í öruggum sigri. Vísir/Getty

Willum Þór Willumsson skoraði eitt marka Go Ahead Eagles þegar liðið vann 4-1 sigur í 2. umferð hollensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu. Kristian Nökkvi Hlynsson kom í fyrsta skipti við sögu hjá aðalliði Ajax. Albert Guðmundsson og félagar í Genoa máttu þola 1-4 tap á heimavelli í endurkomu sinni í Serie A.

Willum Þór var á sínum stað í byrjunarliði GA Eagles þegar liðið tók á móti FC Volendam. Skoraði hann þriðja mark liðsins á 40. mínútu og sá til þess að Ernirnir voru með þriggja marka forystu í hálfleik.

Bobby Adekanye gerði leikinn spennandi með því að láta reka sig af velli undir lok fyrri hálfleiks og Ernirnir því manni færri allan síðari hálfleikinn. Það tókst gestunum ekki að nýta sér betur en svo að þeir skoruðu eitt mark en þar sem heimamenn gerðu það einnig þá lauk leiknum með 4-1 sigri heimamanna. Ernirnir töpuðu fyrsta leik tímabilsins og sigur kvöldsins því kærkominn.

Stórlið Ajax tókst aðeins að gera 2-2 jafntefli við Excelsior. Kristian Nökkvi kom inn af bekknum á lokamínútu venjulegs leiktíma þegar staðan var þegar orðin 2-2. Ajax nú með fjögur stig að loknum tveimur leikjum.

Á Ítalíu sneri Genoa aftur í Serie A, ítölsku úrvalsdeildina. Albert Guðmundsson var í byrjunarliði Genoa sem átti aldrei möguleika gegn Fiorentina. 

Gestirnir voru komnir 2-0 yfir eftir aðeins ellefu mínútur og voru þremur mörkum yfir í hálfleik. Ef það var ekki nóg þá bættu þeir við fjórða markinu áður en Genoa minnkaði muninn, lokatölur 1-4.

Önnur úrslit á Ítalíu voru þau að meistarar Napoli unnu 3-1 útisigur á Frosinone. Victor Osimhen með tvennu í liði Napoli. Þá vann Inter 2-0 sigur á Monza þökk sé tvennu frá Lautaro Martínez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×