Innlent

Lög­reglan hefur ekki yfir neinu að kvarta

Árni Sæberg skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekkert til að kvarta yfir það sem af er fyrsta degi stærstu ferðahelgar ársins.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekkert til að kvarta yfir það sem af er fyrsta degi stærstu ferðahelgar ársins. Stöð 2/Egill

Umferðin var heldur farin að þéttast út úr höfuðborginni nú síðdegis, en gengur vel að sögn Árna Friðleifssonar, aðalvarðstjóra umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Hann var að koma ofan af Kjalarnesi þegar fréttastofa náði tali af honum. Að hans sögn er umferðin bæði um Vesturlands -og Suðurlandsveg allþétt, en ökumenn keyri flestir á jöfnum og löglegum hraða og því hafi lögreglan að svo stöddu ekki yfir neinu að kvarta, nú í byrjun Verslunarmannahelgar. 

Aukinn viðbúnaður

Búast má við að umferðarþunginn nái hámarki nú síðdegis og standi yfir til klukkan sjö, en fari að róast nokkuð eftir það. Fleiri lögreglumenn eru á vakt en venjulega og hafa sýnilegan viðbúnað frameftir kvöldi. Einkum er verið að sinna eftirliti og stutt í aðstoð ef ökumenn þurfa á að halda. 

Reyna að skipta sér ekki of mikið af

Lögreglan reynir að vera með sem minnst inngrip, en stöðvar þó ökumenn ef ástæða þykir til, til að mynda ef hraðinn er of mikill eða ef framlengingarspegla vantar hjá þeim sem eru með ferðahýsi í eftirdragi. Árni hvetur fólk til að fara varlega og óskar öllum gleðilegrar helgar, fyrir hönd lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×