Fótbolti

KA fer til Belgíu eða Dan­merkur sigri það Dundalk

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
KA sló út Connah's Quay Nomads frá Wales í 1. umferð. 
KA sló út Connah's Quay Nomads frá Wales í 1. umferð.  Vísir/Diego

KA mætir Dundalk frá Írlandi í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu. Takist KA að komast í gegnum FH-banana frá árinu 2016 þá bíða þeirra mótherjar frá annað hvort Belgíu eða Danmörku.

Fyrr í dag greindi Vísir frá því að Íslandsmeistarar Breiðabliks mæta Sparta Prag í 3. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu takist þeim að leggja Danmerkurmeistara FCK að velli. Falli Blikar hins vegar úr leik bíður þeirra einvígi gegn annað hvort HŠK Zrinjski Mostar frá Bosníu-Hersegóvínu eða Slovan Bratislava frá Slóvakíu.

Einnig var dregið í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu í dag og þar kom í ljós hverjir næstu andstæðingar KA verða fari svo að Akureyringar slái Dundalk úr leik.

KA fer annað hvort til Belgíu þar sem það mætir Club Brugge eða til Danmerkur þar sem það myndi mæta Mikael Anderson og félögum í AGF.

Club Brugge var stofnað árið 1891 og spilar heimaleiki sína á Jan Breydel-vellinum sem tekur 29.062 í sæti. AGF var stofnað 1880 og spilar heimaleiki sínar á Ceres-vellinum í Árósum sem tekur 19.443 í sæti.

Fyrri leikur KA og Dundalk fer fram á heimavelli Fram í Úlfarsárdal á fimmtudagskvöld þar sem heimavöllur KA á Akureyri er ekki löglegur í Evrópukeppni.

Leikurinn hefst klukkan 18.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsending Stöðvar 2 Sport hefst kl. 17.50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×