Erlent

Sagði SARS-CoV-2 hannaða til að leggjast þyngra á hvíta og svarta

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kennedy var harðlega gagnrýninn á aðgerðir stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum.
Kennedy var harðlega gagnrýninn á aðgerðir stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum. Getty/John Lamparski

Nánir ættingjar forsetaframbjóðandans Robert Kennedy Jr. hafa fordæmt ummæli sem hann lét falla um helgina þess efnis að svo virtist sem SARS-CoV-2 veirunni hefði verið breytt til að leggjast þyngra á hvítt og svart fólk en gyðinga og Kínverja.

Kennedy, sem sækist eftir því að verða forsetaefni Demókrataflokksins, sagði á laugardaginn að svo virtist sem Covid-19 legðist þyngra á ákveðna kynþætti en aðra og að þeir sem virtust með mest ónæmi væru Kínverjar og Ashkenazi-gyðingar.

Ummælin náðust á myndskeið en Kennedy sakaði Kínverja einnig um þróun vírusa sem vopna.

Staðhæfingar Kennedy voru harðlega gagnrýndar á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær, þar sem fjölmiðlafulltrúi Joe Biden Bandaríkjaforseta sagði um að ræða rasískar samsæriskenningar.

Skyldmenni Kennedy bættust í hóp gagnrýnenda hans seinna um daginn en systir hans, Kerry Kennedy, sagðist á Twitter fordæma ummæli hans harðlega. Þá sagði frændi hans, Joe Kennedy III, að ummælin væru bæði röng og særandi.

Kennedy sendi yfirlýsingu til Guardian í gær þar sem hann hélt því fram að orð hans hefðu verið tekin úr samhengi og að hann hefði aldrei haldið því fram að SARS-CoV-2 hefði verið hannaður til að þyrma gyðingum sérstaklega.

Hann ku hins vegar einnig hafa sent miðlinum skilaboð þar sem hann vísaði á vísindagrein þess efnis að sá möguleiki væri fyrir hendi að óprúttnir aðilar hönnuðu lífefnavopn gegn ákveðnum hópum umfram aðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×