Erlent

Boris Spassky er látinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Boris Spassky (vinstri) og Bobby Fischer (hægri) í Laugardalshöllinni 1972.
Boris Spassky (vinstri) og Bobby Fischer (hægri) í Laugardalshöllinni 1972. AP/J. Walter Green

Skákmeistarinn og Íslandsvinurinn Boris Spassky er látinn. Hann var 89 ára gamall en ekki liggur fyrir hvernig hann dó.

Spassky varð heimsmeistari árið 1969 en honum mistókst að verja titilinn í hinni víðfrægu viðureign við Robert Fischer sem fór fram í Laugardalshöllinni árið 1972.

Í frétt rússnesku fréttaveitunnar Tass segir að Spassky hafi flutt til Frakklands árið 1972 en hann fékk ríkisborgararétt þar 1979 og spilaði þrisvar sinnum á heimsmeistaramóti fyrir Frakka.

Eftir árið 2000 ferðaðist hann víða um Rússland og ýtti undir skákiðkun þar, opnaði skóla og hélt mót. Árið 2012 flutti hann aftur til Rússlands og fékk rússneskan ríkisborgararétt árið 2013.

Bobby Fischer lést í Reykjavík þann 17. janúar árið 2008 og var jarðsettur í kyrrþey í Laugardælakirkjugarði við Selfoss þann 21. janúar.

Tæpum tveimur mánuðum síðar, þann 11. mars árið 2008, heimsótti Spasský gröf Fischers og lagði þá blómsveig að leiði hans. Við það tækifæri spurði Spasský hvort laust pláss væri við hlið Fischers, eins og heyra má hann segja í þessari frétt Stöðvar 2 sama dag:

Árið 2022 rifjaði Guðmundur Þórarinsson, fyrrverandi formaður Skáksambandsins, upp að Spassky hefði sagst vilja vera grafinn við hlið Fischers.


Tengdar fréttir

Fischer vildi hvíla í íslenskri sveit

Skákmeistarinn Bobby Fischer var jarðsettur í kyrrþey í sveitakirkjugarði að Laugardælum við Selfoss í morgun. Auk kaþólsks prests, sem jarðsöng, voru aðeins fimm manns við athöfnina, þeirra á meðal ekkja Fischers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×