Erlent

Herinn gerir upp mis­tökin í að­draganda á­rásarinnar 7. októ­ber

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Árásarmennirnir drápu meðal annars 364 einstaklinga á Nova tónlistarhátíðinni.
Árásarmennirnir drápu meðal annars 364 einstaklinga á Nova tónlistarhátíðinni. Getty/Amir Levy

Ísraelsher hefur birt skýrslu þar sem farið er yfir það hvað brást í aðdraganda árásar Hamas á byggðir Ísraelsmanna þann 7. október 2023, sem virðist hafa komið Ísrael algjörlega að óvörum.

Áætlað er að um 5.000 liðsmenn Hamas og annarra hópa hafi tekið þátt í árásinni, þar sem 1.200 voru drepnir og 251 gísl tekinn. Það er niðurstaða skýrslunnar að Ísraelsher hafi mistekist í meginverkefni sínu; að vernda almenna borgara í Ísrael.

Samkvæmt skýrslunni var Gasa-ströndin álitið annars stigs öryggisógn, á eftir Íran og Hezbollah. Þá hafði sú afstaða verið tekin að stjórn Hamas á svæðinu væri ólögmæt en ekki gripið til neinna aðgerða til að stuðla að breytingu á ástandinu.

Herinn hafði áætlað að Hamas-samtökin hefðu hvorki áhuga á né væru að búa sig undir meiriháttar átök og vísbendingar frá 2018 um að samtökin væru þvert á móti með eitthvað umfangsmikið í bígerð verið afskrifaðar sem ótrúverðugar.

Þá segir að í aðdraganda árásanna 7. október hafi verið unnið að nýju hættumati varðandi Gasa, á þeim grundvelli að fyrirætlanir Hamas væru ekki aðeins einhver draumsýn heldur væri raunveruleg skipulagning í gangi.

Þetta nýja mat virðist hins vegar ekki hafa ratað til háttsettra innan hersins.

Í skýrslunni er einnig talað um ákveðinn sofandahátt og skort á gagnrýnni hugsun. „Það var aldrei spurt: Hvað ef við hefðum rangt fyrir okkur?“ segir í skýrslunni.

Þannig hafi gjá myndast milli mats hersins á stöðunni og raunveruleikans á Gasa.

Kallað er eftir ákveðnum breytingum til að koma í veg fyrir að árás af þessu tagi geti endurtekið sig.

BBC greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×