Erlent

Merz segir við­ræður hafnar við Sósíal­demó­krata

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Merz vill mynda nýja ríkisstjórn fyrir páska.
Merz vill mynda nýja ríkisstjórn fyrir páska. Getty/Johannes Simon

Friedrich Merz, leiðtogi Kristilegra demókrata í Þýskalandi, sagði í gær að meirihlutaviðræður væru hafnar við Sósíaldemókrata. Sagðist hann telja að aukinn kraftur yrði settur í þær á næstu dögum en hann stefnir að myndun ríkisstjórnar fyrir páska.

Merz sagðist vonast til að komast að samkomulagi við Sósíaldemókrata „á næstunni“; miklar sviptingar væru að eiga sér stað í alþjóðamálum sem krefðust stöndugrar ríkisstjórnar í Þýskalandi.

Merz mun leiða viðræðurnar fyrir hönd Kristilegra demókrata en með honum í ráðum verður Markus Söder, leiðtogi systursamtakanna í Bæjaralandi. Þá er gert ráð fyrir því að Lars Klingbeil, formaður og væntanlegur þingflokksformaður Sósíaldemókrata, muni fara fyrir samninganefnd þeirra.

Þrátt fyrir yfirlýsingar Merz, sem yrði væntanlega kanslari, hefur Klingbeil sett þann fyrirvara við viðræðurnar að Sósíaldemókratar muni ekki ganga til meirihlutasamstarfs við Kristilega demókrata nema að undangenginni atkvæðagreiðslu meðal 360 þúsund félaga flokksins.

Dirk Wiese, þingmaður Sósíaldemókrata, sagði í samtali við DW að samstarf Kristilegra demókrata og Sósíaldemókrata væri eina trausta meirihlutasamstarfið í stöðunni en kristilegu demókrataflokkarnir tveir fengu samtals  33 prósent í nýafstöðnum kosningum og Sósíaldemókratar 19 prósent.

Wiese sagði hins vegar ekki sjálfgefið að menn kæmust að samkomulagi.

Miklar umræður standa yfir um aukin fjárframlög til varnarmála en Wiese sagði hreinlegast að greiða fyrir aukningunni með því að endurskoða svokallaða „skuldabremsu“ ríkisins. Merz og aðrir innan Kristilega demókrataflokksins vilja hins vegar ekki fara þá leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×