Fótbolti

Barcelona og Real Madríd ein á báti eftir að Juventus steig frá borði

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Juventus styður ekki lengur hugmyndina um Ofurdeild Evrópu.
Juventus styður ekki lengur hugmyndina um Ofurdeild Evrópu. EPA-EFE/ALESSANDRO DI MARCO

Ítalska knattspyrnufélagið mun á næstunni draga sig úr Ofurdeild Evrópu. Spænsku stórliðin Real Madríd og Barcelona verða því einu tvö félögin eftir sem styðja verkefnið heilshugar.

Frá þessu greinir The Athletic en þar segir að Juventus hafi í gær, þriðjudag, opinberað að það hafi sent bæði Real og Barcelona bréf þar sem ítalska liðið tilkynnti að það styddi ekki lengur svokallaða Ofurdeild Evrópu.

Í kjölfarið mun Juventus fara í gegnum ferli þar sem það yfirgefur verkefnið algjörlega en spænsku félögin tvö eru einu tvö liðin sem styðja verkefnið eins og staðan er í dag.

Þann 18. apríl 2021 tilkynntu nokkur af stærstu liðum Evrópu plön sín um að stofna það sem þau kölluðu „Ofurdeild Evrópu.“ Átti keppnin að vera til höfuðs Meistaradeild Evrópu. Segja má að um misheppnað plan hafi verið að ræða og ekki leið á löngu þar sem níu af tólf liðum drógu úr stuðningi sínum við deildina.

Liðin þrjú sem sátu eftir voru Juventus, Barcelona og Real Madríd. Nú hefur Juventus, sem endaði í 7. sæti á Ítalíu eftir að 10 stig voru tekin af liðinu, ákveðið að slíta sig alfarið frá hugmyndum um „Ofurdeildina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×