Innlent

Litlu mátti muna að sinubruni læstist í skemmu

Árni Sæberg skrifar
Brunavarnir Austurlands sinntu útkallinu. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Brunavarnir Austurlands sinntu útkallinu. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Vilhelm

Brunavörnum Múlaþings gekk vel að ráða niðurlögum sinuelds sem kviknaði á túni við bæinn Dali í Hjalt­astaðaþing­há nú síðdegis. Eldurinn logaði alveg við verkfærageymslu á túninu en náði ekki að læsa sér í geymsluna.

Þetta segir Bene­dikt Logi Hjart­ar­son Kjer­úlf, varðstjóri hjá Bruna­vörn­um á Aust­ur­landi, í samtali við Vísi. Hann segir slökkvistarf hafa gengið vel þrátt fyrir að slökkvilið hafi óttast að bruninn næði að dreifa sér upp hlíð, sem er vel gróin lyngi, mosa og sinu, og þaðan í skóglendi fyrir ofan bæinn.

Brunavarnir Múlaþings nutu liðsinnis slökkviliðsins á Borgarfirði eystri og alls komu tólf slökkvilismenn að verkefninu. Benedikt Logi segir fjórhóladrifinn slökkviliðsbíl, sem er sérútbúinn fyrir gróðurelda, hafa skipt sköpum. Tekist hafi að aka honum upp hlíðina og sprauta vatni úr honum á eldinn. Aðrir slökkviliðsmenn hafi nýtt svokallaðar sinuklöppur til þess að hefta útbreiðslu eldsins.

Þá segir hann að mesta mildi sé að eldurinn hafi ekki náð að læsa sér í verkfærageymslunni. „Það er ótrúlegt að það hafi ekki kviknað í geymslunni. Það sást smá svart á bárujárninu við annan endann á henni, en blessunarlega var lítil sina á túninu við geymsluna,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×