Erlent

Sanders ætlar ekki í framboð

Máni Snær Þorláksson skrifar
Bernie Sanders ætlar ekki í framboð gegn Joe Biden, forseta Bandaríkjanna.
Bernie Sanders ætlar ekki í framboð gegn Joe Biden, forseta Bandaríkjanna. Getty/Jim Vondruska

Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders ætlar sér ekki að reyna að verða forsetaefni Demókrataflokksins í þriðja skipti. Hann segist frekar ætla að styðja framboð Joe Biden og gera hvað sem í hans valdi stendur til að sjá til þess að hann verði endurkjörinn sem forseti Bandaríkjann

Sanders, sem er 81 árs gamall, hefur í tvígang reynt að verða forsetaefni Demókrataflokksins. Í fyrsta skiptið tapaði hann gegn Hillary Clinton og í seinna skiptið laut hann í lægra haldi fyrir Biden. Hann vill alls ekki að Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, eða einhver honum líkur nái að steypa Biden af stóli.

„Það síðasta sem þessi þjóð þarfnast er Donald Trump eða einhver annar lýðskrumari af hægri vængnum sem mun reyna að grafa undan bandarísku lýðræði,“ segir Sanders í samtali við AP.  

Þjóðin þurfi heldur ekki forseta sem reynir að taka í burtu réttindi kvenna eða forseta sem snertir ekki á vandamálum eins og skotárásum, kynjamisrétti og hatri gegn hinsegin fólki:

„Svo ég mun gera hvað sem ég get til að sjá til þess að forsetinn verði endurkjörinn.“

Sanders segir að það sé of snemmt að segja til um það hvert hans hlutverk verði nákvæmlega í framboði Biden til endurkjörs. Þá segir hann það hafa verið forréttindi að fá að taka þátt í kosningabaráttunum um að verða forsetaefni flokksins.

„Ég naut þess mjög mikils og ég vona að við höfum náð að hafa einhver áhrif á eðli stjórnmála í Bandaríkjunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×