Fótbolti

„Trúin hjá leik­mönnum og stuðnings­fólki er alltaf til staðar“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bruno í leik kvöldsins.
Bruno í leik kvöldsins. EPA-EFE/Adam Vaughan

Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United í kvöld, var eðlilega í sjöunda himni þegar hann ræddi við blaðamenn eftir frækinn 2-1 endurkomusigur Man United á Barcelona í síðari leik liðanna í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Fyrri leik liðanna, sem fór fram á Nývangi í Katalóníu, lauk með 2-2 jafntefli og því allt galopið fyrir leik kvöldsins. Bruno fékk dæmda á sig vítaspyrnu í fyrri hálfleik sem Robert Lewandowski skoraði úr þrátt fyrir að David De Gea næði að slæma hendi í knöttinn. Í síðari hálfleik skoruðu hins vegar Brasilíumennirnir Fred og Antony sem kom Man Utd 2-1 yfir og reyndust það lokatölur.

„Trúin hjá leikmönnum og stuðningsfólki er alltaf til staðar. Stuðningsfólkið stóð við bakið á okkur og ýtti okkur áfram á erfiðum augnablikum. Það skóp þessa frábæru endurkomu. Þetta voru frábær úrslit en við eigum mikilvægan leik á sunnudaginn,“ sagði fyrirliðinn eftir leik.

„Ekkert sem ég segi núna mun breyta því en mér fannst ekki mikið vera í þessu. Báðir að reyna komast í góða stöðu, báðir að nota hendurnar en svona er þetta. Ég vil ekki tjá mig of mikið. Dómararnir hafa alltaf rétt fyrir sér og get ekkert gert í þessu núna,“ sagði Fernandes um vítaspyrnudóminn.

„Stuðningsfólkið hefur alltaf verið með okkur á erfiðum augnablikum. Við höfum spilað vel á þessari leiktíð því þau eru alltaf við bakið á okkur en þetta er eitthvað annað. Þú getur fundið að það er eitthvað sérstakt á milli okkar og þeirra hér á Old Trafford. Þess vegna náðum við í þessi úrslit.“

„Þegar við skoruðum strax í upphafi seinni hálfleiks vissi ég að þau myndu standa þétt við bakið á okkur,“ sagði Fernandes að endingu en hann lagði upp jöfnunarmark Man United í leiknum. Leikmenn liðsins fá ekki langan tíma til að jafna sig því á sunnudag mætir liðið Newcastle United í úrslitum enska deildarbikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×