Fótbolti

Barn beit dómarann á mjög við­kvæman stað og leik var af­lýst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ónefndur aðstoðardómari að störfum á fótboltaleik en myndin tengist fréttinni ekki beint.
Ónefndur aðstoðardómari að störfum á fótboltaleik en myndin tengist fréttinni ekki beint. Allsport/Doug Pensinger

Fótboltaleikjum hefur nú verið aflýst af mörgum mismunandi ástæðum í gegnum tíðina en það er ekki oft sem ástæðan er sú sem orsakaði það að leikur í þýsku neðri deildunum fór ekki fram um helgina.

Leikurinn sem um ræðir var á milli liðanna FC Taxi Duisburg II og SV Rot-Weiss Mülheim í H-deild þýska boltans, svokallaðri Kreisliga C.

Fyrir leiki í þessari deild er venjan að dómari leiksins fari yfir keppnisleyfi leikmanna liðanna.

Það var einmitt við þær aðstæður sem ungt barn kom upp að Stefan Kahler dómara. Heimildir herma að þetta hafi verið sonur leikmanns í liði Taxi Duisburg II.

Barninu tókst að komast að dómaranum og bíta hann á mjög viðkvæman stað í klofinu.

Kahler var svo þjáður á eftir að hann treysti sér ekki til að dæma leikinn.

„Barnið kom nær og nær og svo allt í einu, algjörlega að óvörum, þá beit það mig,“ skrifaði Stefan Kahler í dómaraskýrslu sína.

Rheinische Post segir frá þessu. Þar segir að leiknum verði fundur nýr leiktími en það sé ekki enn ljóst hvort að Kahler muni dæma hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×