Enski boltinn

Nottingham Forest vann aftur eftir vítakeppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Yates og félagar í Nottingham Forest eru komnir áfram í átta liða úrslit enska bikarsins en hér fagnar hann marki sínu í leiknum á móti Ipswich Town í kvöld.
Ryan Yates og félagar í Nottingham Forest eru komnir áfram í átta liða úrslit enska bikarsins en hér fagnar hann marki sínu í leiknum á móti Ipswich Town í kvöld. Getty/Michael Regan

Nottingham Forest varð í kvöld síðasta liðið til að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum enska bikarsins í fótbolta en þá kláruðust sextán liða úrslitin.

Forest menn unnu þá 5-4 sigur á Ipswich Town í vítakeppni og fá að launum leik á móti Brighton & Hove Albion á útivelli í átta liða úrslitunum.

Þetta er önnur umferðin í röð í bikarnum þar sem Nottingham Forest fagnar sigri í vítakeppni en liðið vann Exeter City í vítakeppni í 32 liða úrslitunum.

Matz Sels, belgíski markvörður Nottingham Forest, var hetjan því hann varði fimmtu og síðustu spyrnu Ipswich en fram að því höfðu allir skorað úr sínum vítaspyrnum.

Jack Taylor, miðjumaður Ipswich, var skúrkur kvöldsins en spyrna hans var alls ekki nógu góð og Sels varði hana örugglega.

George Hirst kom Ipswich í 1-0 á 53. mínútu með skalla á fjærstöng eftir hornspyrnu frá Ben Johnson.

Ipswich var yfir í fimmtán mínútur eða þar til að Ryan Yates skallaði inn fyrirgjöf Anthony Elanga á 68. mínútu.

Staðan var því jöfn 1-1 eftir venjulegan leiktíma og því þurfti að framlengja leikinn. Þar var ekkert skorað og úrslitin réðust því í vítakeppni.

  • Vítaspyrnukeppnin:
  • Nottingham Forest 5-4 Ipswich Town
  • 1-0 Chris Wood, Nottingham Forest - mark
  • 1-1 Sam Morsy, Ipswich Town - mark
  • 2-1 Morgan Gibbs-White, Nottingham Forest - mark
  • 2-2 Liam Delap, Ipswich Town - mark
  • 3-2 Elliot Anderson, Nottingham Forest - mark
  • 3-3 Jens-Lys Cajuste, Ipswich Town - mark
  • 4-3 Neco Williams, Nottingham Forest - mark
  • 4-4 Ben Johnson, Ipswich Town - mark
  • 5-4 Callum Hudson-Odoi, Nottingham Forest - mark
  • 5-4 Jack Taylor, Ipswich Town - varið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×