Enski boltinn

For­dæma morð­hótanir sem Tarkowski hafa borist

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
James Tarkowski bað Alexis Mac Allister afsökunar eftir leik Liverpool og Everton í fyrradag.
James Tarkowski bað Alexis Mac Allister afsökunar eftir leik Liverpool og Everton í fyrradag. getty/Richard Martin-Roberts

Everton hefur fordæmt morðhótanir sem James Tarkowski, leikmanni liðsins, og fjölskyldu hans hafa borist eftir leikinn gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á miðvikudaginn.

Tarkowski braut gróflega á Alexis Mac Allister snemma leiks en slapp með gult spjald. Dómarasamtök ensku úrvalsdeildarinnar viðurkenndu síðan að Tarkowski hefði átt að fá rautt spjald fyrir tæklinguna.

Stuðningsmenn Liverpool voru margir hverjir ósáttir við Tarkowski og sumir gengu svo langt að senda honum og fjölskyldu hans lífslátshótanir. Eiginkona hans, Samantha, greindi frá því á Instagram og sagði hótanirnar viðbjóðslegar.

Everton hefur núna fordæmt hótanirnar sem Tarkowski hafa borist frá leiknum gegn Liverpool.

„Everton er meðvitað um hótanirnar sem James Tarkowski og fjölskylda hans hafa fengið á samfélagsmiðlum. Slík hegðun er algjörlega óásættanleg og á sér engan stað í fótboltanum eða samfélaginu,“ segir í yfirlýsingu frá Everton.

„Félagið vinnur með James og konu hans, Samönthu, er tilbúið vinna með samfélagsmiðlafyrirtækjunum og aðstoða lögregluna við hvers konar rannsókn. Everton fordæmir hvers kyns hótanir og níð í garð leikmanna, starfsfólks eða fjölskyldna þeirra.“

Liverpool vann leikinn á Anfield, 1-0, með marki Diogos Jota. Liðið er með tólf stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en Everton er í 15. sæti.

Tarkowski og félagar í Everton fá Arsenal í heimsókn í hádeginu á morgun. Liverpool mætir hins vegar Fulham á Craven Cottage á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×