Innlent

Reyndist vera að fram­kvæma and­lega at­höfn með logandi kyndli

Atli Ísleifsson skrifar
Engar skemmdir hlutust af.
Engar skemmdir hlutust af. Vísir/Vilhelm

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út eftir að tilkynnt var um eld í húsnæði í Hafnarfirði. Í ljós kom að húsráðandi hafi þar verið að framkvæma einhvers konar andlega athöfn með logandi kyndli.

Frá þessu segir í tilkynningu frá lögreglu þar sem segir frá verkefnum gærkvöldsins og næturinnar. Er tekið fram að engar skemmdir hafi hlotist af.

Í tilkynningunni segir einnig frá því að tilkynnt hafi verið um slagsmál á milli tveggja aðila í miðborg Reykjavíkur, en þegar lögreglu hafi borið að garði þá hafi fólkið verið farið af vettvangi.

Aðkomu lögreglu var einnig óskað vegna ógnandi einstaklings á veitingastað í miðborg Reykjavíkur og var honum vísað út af lögreglu án vandræða. Sömuleiðis var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi á hóteli í hverfi101 sem hafi þar verið að áreita þar gesti. Sá var farinn þegar lögreglu bar að.

Stal eldsneyti

Í Grafarvogi var tilkynnt um mann sem var að stela töluverðu magni af eldsneyti af vöruflutningabíl og var sá handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu í þágu rannsóknar málsins.

Þá segir frá því að bakpoka með fatnaði og persónulegum munum hafi verið stolið úr ólæstum skáp í íþróttamiðstöð í hverfi 105 í Reykjavík og að málið sé í rannsókn.

Lögregla þurfti einnig að hafa afskiptum af nokkrum fjölda vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×