Erlent

Þing­menn þurfa ekki lengur að opin­bera tekjur sínar né eignir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Neðri deild rússneska þingsins að störfum.
Neðri deild rússneska þingsins að störfum. epa/Sputnik/Alexander Astafyev

Neðri deild rússneska þingsins hefur samþykkt ný lög sem gera það að verkum að þingmenn munu ekki lengur þurfa að opinbera tekjur sínar né eignir. Þess í stað munu skattayfirvöld gefa út „samantekt“ byggða á þeim gögnum sem þeim berast.

Haft er eftir einum þingmanni að um sé að ræða breytingu til að „vernda persónuleg gögn“. 

Stjórnmálafræðingurinn Alexei Makarkin segir í samtali við dagblaðið Kommersant að verið sé að hverfa aftur að sovéska módelinu í baráttunni gegn spillingu; að spillingarmál séu lögreglumál og aðeins fyrir lögreglu að fjalla um.

Hin nýju lög fylgja á hæla yfirlýsingar sem Vladimir Pútín Rússlandsforseti gaf út í desember og kvað á um að embættismenn þyrftu ekki að opinbera tekjur sínar né eignir á meðan stríðið í Úkraínu stæði yfir.

Rússland er í sæti 136 af 180 á lista Transparency International yfir spillingu.

Þá bar það einnig til tíðinda í gær að dómstóll í Moskvu lagði blessun sína yfir beiðni dómsmálaráðuneytisins að „leysa upp“ Moscow Helsinki Group, elstu mannréttindasamtök Rússlands. Samtökin hyggjast áfrýja.

Pútín hefur unnið ötullega að því að kveða niður gagnrýnisraddir heima fyrir og fjölmörg samtök hafa verið bönnuð. Þá eru flestir fremstu stjórnarandstæðingar landsins ýmist í fangelsi eða útlegð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×