Innlent

Helgi Seljan byrjaður að vinna á RÚV

Jakob Bjarnar skrifar
Helgi Seljan segist alltaf hafa haft áhuga á fréttum, hann sótti um og byrjar í afleysingum fljótlega. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fréttum, segir Helgi.
Helgi Seljan segist alltaf hafa haft áhuga á fréttum, hann sótti um og byrjar í afleysingum fljótlega. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fréttum, segir Helgi. vísir/vilhelm

Eftir hálft ár í fríi frá fjölmiðlum, en Helgi Seljan hætti á Heimildinni fyrir fáeinum mánuðum, er hann við að hefja störf á RÚV - aftur.

„Ég er ekki byrjaður en, já. Ég sótti um og fékk tímabundna ráðningu. Ég er að læra að rata í húsinu,“ segir Helgi.

Helgi hefur lengi verið einn þekktasti fréttamaður landsins og margverðlaunaður sem slíkur. Hann hefur starfað á DV, Talstöðinni, NFS, RÚV og svo Heimildinni. Hann segist halda að hann sé haldinn einhverskonar bakteríu.

„En það er líka bara fínt að koma hingað aftur. Verður spennandi.“

Helgi segist byrja í afleysingum í einhverjum þeirra fréttatengdu þátta sem eru í útvarpinu og svo segist hann jafnframt verða eitthvað að vinna fyrir sjónvarp líka. Hann segist aldrei hafa gefið út yfirlýsingu um að hann væri að hætta, þó hann hafi nú starfað fyrir Rauða krossinn eftir að störfum hans hjá Heimildinni lauk.

Römm er sú taug?

„Jájá. Fínt að geta droppað hérna inn í smá tíma. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fréttum og má segja að þetta sé langþráður draumur að rætast. Allt frá því ég var sex ára gamall að fylgjast með Ingva Hrafni lýsa leiðtogafundinum og hugsaði með mér: Svona vil ég verða þegar ég verð stór.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×