Fótbolti

Upp­á­halds­dómari ís­lenska lands­liðsins dæmir úr­slita­leik HM í Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Szymon Marciniak með þeim Lionel Messi og Aroni Einari Gunnarssyni fyrir leik Íslands og Argentínu á HM í Rússlandi 2018.
Szymon Marciniak með þeim Lionel Messi og Aroni Einari Gunnarssyni fyrir leik Íslands og Argentínu á HM í Rússlandi 2018. Getty/Lukasz Laskowski

Pólverjinn Szymon Marciniak verður með flautuna í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í Katar.

Marciniak hefur dæmt tvo leiki á mótinu, einn hjá Frakklandi (á móti Danmörku) og einn hjá Argentínu (á móti Ástralíu). Bæði liðin unnu leikinn 2-1, Kylian Mbappé skoraði tvö á móti Dönum og Lionel Messi og Julián Álvarez skoruðu báðir á móti Ástralíu.

Ef Ísland væri að spila þennan leik þá værum við í skýjunum með val dómaranefndar FIFA.

Íslenska landsliðið fékk hann í fjórum leikjum frá árinu 2016 til 2019 og það hægt að kalla hann uppáhaldsdómara íslenska landsliðsins.

Ísland vann þrjá af fjórum þessara leikja og einn þeirra endaði með jafntefli. Ísland tapaði aldrei þegar Marciniak mætti með flautuna.

Marciniak hefur dæmt þrjá af eftirminnilegustu leikjum gullkynslóðarinnar.

Fyrst dæmdi hann lokaleik Ísland í riðlakeppni EM 2016 þegar Ísland vann 2-1 sigur á Austurríki í París og tryggði sér leik á móti Englandi í sextán liða úrslitum. Austurríkismenn fengu víti í stöðunni 1-0 fyrir Ísland en skutu í stöngina.

Næst dæmdi Marciniak útileik Íslands í Tyrklandi í október 2017 sem endaði með frábærum 3-0 sigri Íslands.

Marciniak dæmdi síðan 1-1 jafnteflisleik Íslands á móti Argentínu sem var fyrstu leikur þjóðanna á HM í Rússlandi 2018. Messi fékk víti í leiknum en Hannes Halldórson varði.

Síðast dæmi Marciniak hjá Íslandi þegar Íslenska liðið vann 2-1 sigur á Tyrklandi í undankeppni EM 2020 en leikurinn fór fram í júní 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×