Fótbolti

Líka rekinn eftir 9-0 tap um helgina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jack Ross reynir að koma skilaboðum áleiðis til sinna manna um helgina. Lið hans tapaði 9-0.
Jack Ross reynir að koma skilaboðum áleiðis til sinna manna um helgina. Lið hans tapaði 9-0. Steve Welsh/Getty Images

Jack Ross er atvinnulaus eftir að Dundee United ákvað að láta þjálfarann fara eftir 9-0 tap gegn Skotlandsmeisturum Celtic um helgina. Hann hafði aðeins verið í starfinu í tíu vikur.

Fyrr í dag var Scott Parker látinn taka poka sinn hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Bournemouth eftir 9-0 tap gegn Liverpool um helgina. Þar áður hafði Bournemouth tapað 3-0 fyrir Arsenal og 4-0 fyrir Manchester City.

Lið Dundee hefur ekki átt sjö dagana sæla og byrjað tímabilið einstaklega illa. Alls hefur það spilað sjö leiki sem hafa skilað einum sigri, einu jafntefli og fimm töpum. Tímabilið byrjaði í raun ágætlega en liðið náði í stig á útivelli gegn Kilmarnock þar sem heimamenn jöfnuðu eftir að Dundee varð manni færri.

Í kjölfarið vann liðið 1-0 sigur á AZ Alkmaar í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu. Svo tapaði liðið 0-1 á heimavelli fyrir Livingston áður en skellurinn kom í Hollandi. AZ Alkmaar vann síðari leik liðanna 7-0 og Dundee hefur ekki séð til sólar síðan.

Liðið tapaði 4-1 fyrir Hearts, 3-0 á heimavelli fyrir St. Mirren og loks 9-0 gegn Celtic á laugardaginn var. Staðan var 4-0 í hálfleik eftir að Celtic skoraði tvívegis í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Gestirnir bættu við fimm mörkum í síðari hálfleik og nú er Ross orðinn atvinnulaus.

Dundee United er á botni skosku úrvalsdeildarinnar með aðeins eitt stig á meðan Celtic er á toppnum með fullt hús stiga eftir fimm umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×