Íslenski boltinn

Sjáðu mar­ka­flóð Þróttara, fyrstu mörk Sel­fyssinga í langan tíma og endur­komu Kefla­víkur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þróttur skoraði fimm gegn ÍBV.
Þróttur skoraði fimm gegn ÍBV. Vísir/Hulda Margrét

Þrír leikir fóru fram í Bestu deild kvenna í fótbolta í gær þar sem alls voru 13 mörk. Þróttur Reykjavík vann ÍBV 5-1, Selfoss vann 2-0 sigur á Þór/KA og Keflavík kom til baka og vann Aftureldingu 3-2 í Mosfellsbæ.

Þróttur R. og ÍBV mættust í því sem átti að vera hörkuleikur í baráttunni um þriðja sæti deildarinnar en liðin voru í 4. og 5. sæti fyrir leikinn. Leikurinn var spennandi í upphafi en Þróttarar tóku öll völd á vellinum þegar líða tók á fyrri hálfleik.

Andrea Rut Bjarnadóttir kom Þrótti yfir en Sandra Voitane jafnaði metin fyrir Eyjakonur á 18. mínútu. Eftir það lauk ÍBV leik ef svo má að orði komast. Danielle Julia Marcano skoraði tvívegis áður en fyrri hálfleik lauk og staðan 3-1 er gengið var til búningsherbergja.

Ólöf Sigríður Kristinsdóttir og Freyja Karín Þorvarðardóttir bættu við mörkum í síðari hálfleik og fór það svo að Þróttur vann 5-1 sigur.

Klippa: Besta deild kvenna: Þróttur R. 5-1 ÍBV

Selfoss vann 2-0 sigur á Þór/KA en fyrir leikinn hafði Selfoss ekki skorað í fimm leikjum í röð. Brenna Lovera gerði fyrra markið á 6. mínútu leiksins og Susanna Joy Friedrichs tryggði sigurinn með síðara marki liðsins á 77. mínútu.

Klippa: Besta deild kvenna: Selfoss 2-0 Þór/KA

Afturelding og Keflavík mættust í hörkuleik þar sem gestirnir höfðu betur. Ana Paula Santos Silva kom Keflavík yfir en Hildur Karítas Gunnarsdóttir jafnaði metin og staðan 1-1 í hálfleik. Eyrún Vala Harðardóttir kom Aftureldingu yfir í síðari hálfleik en Keflavík svaraði með tveimur mörkum. Anita Lind Daníelsdótti jafnaði metin úr vítaspyrnu og Dröfn Einarsdóttir skoraði svo sigurmarkið þegar stundarfjórðungur lifði leiks.

Klippa: Besta deild kvenna: Afturelding 2-3 Keflavík

Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×