Íslenski boltinn

Ný treyja KR kynnt með pompi og prakt

Valur Páll Eiríksson skrifar
KR kynnti nýja treyju í myndskeiði sem birt var á samfélagsmiðlum liðsins í dag.
KR kynnti nýja treyju í myndskeiði sem birt var á samfélagsmiðlum liðsins í dag. Mynd/KR

KR birti myndskeið á samfélagsmiðlum félagsins í hádeginu þar sem keppnistreyjan fyrir komandi fótboltasumar var kynnt. Treyjan sækir innblástur til 100 ára afmælisárs félagsins, 1999, og fyrirliði þess tíma bregður fyrir.

Nýja treyjan er framleidd af Macron og er hönnuð af Ólafi Þór Kristinssyni og Jóni Kára Eldon.

„Treyja KR í ár sækir innblástur sinn til ársins 1999 — eins sigursælasta tímabils í sögu félagsins, þegar bæði karla- og kvennalið KR urðu tvöfaldir meistarar. Smáatriðin í treyjunni vísa til gullaldartímans og sögu KR þar sem nútímalegur blær og klassík mætast í fullkomnu jafnvægi,“ segir í yfirlýsingu KR.

Myndskeið þar sem treyjan er kynnt til leiks má sjá í spilaranum að neðan. Þar kemur fyrirliði karlaliðs KR frá 1999, Þormóður Egilsson, við sögu.

KR leikur í Bestu deild karla í sumar og Lengjudeild kvenna. Keppni í Bestu deildinni hefst um þarnæstu helgi, en KR mætir KA á Akureyri í fyrsta leik. Í þeim leik verður nýja treyjan vígð.

KR mætir Víkingi í Víkinni annað kvöld, klukkan 19:00 í úrslitaleik Bose-bikarsins. Sá leikur verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Ný treyja KR sem liðið klæðist í Bestu deild karla og Lengjudeild kvenna í sumar.Mynd/KR



Fleiri fréttir

Sjá meira


×