Íslenski boltinn

Sjáðu mörkin sem tryggðu Val Lengjubikarinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurður Egill Lárusson skoraði sigurmark Vals í Árbænum.
Sigurður Egill Lárusson skoraði sigurmark Vals í Árbænum. vísir/diego

Valur varð í dag Lengjubikarmeistari karla eftir 2-3 sigur á Fylki á Würth vellinum í Árbænum í dag. Fylkismenn komust í 2-0 en Valsmenn sneru dæminu sér í vil.

Fylkir, sem féll úr Bestu deildinni á síðasta tímabili, hefur komið á óvart í Lengjubikarnum og sló KR út í undanúrslitunum.

Fylkismenn mættu ákveðnir til leiks gegn Valsmönnum í dag og náðu forystunni á 12. mínútu. Guðmundur Tyrfingsson skoraði þá laglegt mark með skoti í slá og inn.

Níu mínútum síðar jók Benedikt Daríus Garðarsson muninn í 2-0 eftir sendingu frá Emil Ásmundssyni.

Aðeins tveimur mínútum síðar minnkaði gamli Fylkismaðurinn Orri Hrafn Kjartansson muninn í 2-1 eftir samspil við Albin Skoglund. Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik.

Valsmenn jöfnuðu á 82. mínútu þegar Patrick Pedersen nýtti sér vandræðagang í vörn Fylkismanna og skoraði sitt níunda mark í Lengjubikarnum.

Aðeins tveimur mínútum síðar sendi Jónatan Ingi Jónsson boltann fyrir mark Fylkis og varamaðurinn Sigurður Egill Lárusson skoraði þá af harðfylgi og kom Val í 2-3.

Klippa: Fylkir 2-3 Valur

Fylkismenn voru nálægt því að jafna undir lokin en Hólmar Örn Eyjólfsson bjargaði á línu.

Skömmu síðar flautaði Ívar Orri Kristjánsson til leiksloka og Valsmenn fögnuðu sigri í leiknum og í Lengjubikarnum.

Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Valur fær Vestra í heimsókn í 1. umferð Bestu deildinni sunnudaginn 6. apríl. Fylkir sækir Njarðvík heim í 1. umferð Lengjudeildarinnar föstudaginn 2. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×