Íslenski boltinn

Besta-spáin 2025: Leiðin orðin grýttari

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir KA 9. sæti Bestu deildar karla í sumar.

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KA-menn fagna eftir að hafa unnið Víkinga í úrslitaleik Mjólkurbikarsins í fyrra. KA varð þar með bikarmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins. vísir/diego

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir KA 9. sæti Bestu deildar karla í sumar.

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir að venju fyrir um gengi liðanna í Bestu deild karla með árlegri spá sinni fyrir mótið. Keppni í deildinni hefst með leik Íslandsmeistara Breiðabliks og Aftureldingar laugardaginn 5. apríl.

Íþróttadeild spáir KA 9. sæti Bestu deildarinnar í sumar og liðið fari niður um tvö sæti frá því í fyrra.

Eftir 35 ára bið vann KA loks aftur stóran titil á síðasta tímabili þegar liðið vann Víking, 2-0, í úrslitaleik Mjólkurbikarsins. Úrslitaleikurinn var vel upp settur hjá Hallgrími Jónassyni, þjálfara KA, og sigur Akureyringa var sanngjarn.

Hallgrímur Jónasson var fyrsti þjálfari KA til að vinna stóran titil síðan Guðjón Þórðarson gerði liðið að Íslandsmeisturum 1989.vísir/diego

Bikarsigurinn gerði það að verkum að sumarið 2024 hjá KA var frábært, sama hvað árangrinum í Bestu deildinni leið. KA endaði bara í sama sæti og sumarið 2023, því sjöunda, eftir afleita byrjun á tímabilinu. 

KA-menn vann nefnilega aðeins einn af fyrstu tíu leikjum sínum. Eftir það fóru þeir á mikið flug, voru ósigraðir í næstu tíu leikjum og kvöddu botnbaráttuna með afgerandi hætti. KA endaði svo efst í úrslitakeppni neðri hlutans; bestir af restinni.

grafík/bjarki

Líkt og fyrir síðasta tímabil hafa KA-menn verið rólegir í tíðinni á félagaskiptamarkaðnum í vetur. Þeir hafa hins vegar misst mikið og leikmannahópurinn er veikari en í fyrra. 

Mesti missirinn er af Daníel Hafsteinssyni og Sveini Margeiri Haukssyni sem fóru í Víking. Sá síðarnefndi var vissulega ekki með dágóðan hluta af síðasta tímabili en Daníel var þrusugóður í fyrra og skarð hans verður ekki fyllt svo glatt. Elfar Árni Aðalsteinsson, Darko Bulatovic og Harley Willard eru einnig farnir sem og markvörðurinn Kristijan Jajalo.

grafík/bjarki

Minna hefur verið að frétta af leikmannakomum hjá KA. Guðjón Ernir Hrafnkelsson kom frá ÍBV og Jóan Símun Edmundsen, sem lék með KA seinni hluta sumarsins 2023, er kominn aftur. 

Þá kom markvörðurinn Jonathan Rasheed en hann meiddist áður en hann náði að spila leik fyrir KA. Í staðinn kom danskur markvörður, William Tönning, en hann lék sinn fyrsta leik fyrir KA þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Þór í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins í fyrradag.

grafík/bjarki

Akureyringar eru eflaust vongóðir um sæti í úrslitakeppni efri hlutans og það er ýmislegt sem hjálpar þeim í þeirri baráttu. KA er með feykigott miðvarðapar (Hans Viktor Guðmundsson og Ívar Örn Árnason), reyndan hóp og svo er Hallgrímur Mar Steingrímsson ennþá þarna.

Svæsin veikindi þurfti til að hann missti loks af leikjum í fyrra - hann hafði spilað 160 leiki í röð í efstu deild, eða alla leiki KA á árunum 2017-23 - en var góður eftir að hann sneri aftur og endaði sem markahæsti leikmaður KA með níu mörk. Enn eitt árið leggja KA-menn mest sitt sóknartraust á Húsvíkinginn.

Járnkarlinn Hallgrímur Mar Steingrímsson hefur verið besti leikmaður KA síðan liðið komst upp í efstu deild fyrir tæpum áratug.vísir/diego

Sveitungi Hallgríms, Ásgeir Sigurgeirsson, skoraði átta mörk í fyrra og Viðar Örn Kjartansson sex. Hann kom skömmu fyrir mót í fyrra, var mjög lengi í gang en komst á ágætis skrið eftir því sem á tímabilið leið. KA-menn vonast væntanlega eftir meira og jafnara framlagi frá honum í sumar.

Fallbarátta verður ekki á boðsstólnum fyrir norðan í sumar en leiðin upp í topp sex virðist vera orðin lengri og grýttari en í fyrra. Það er því bara spurning hvort bikarinn liti sumarið aftur gult og blátt á Brekkunni.


Tengdar fréttir






×