Um­fjöllun: Ítalía-Ís­land 1-1 | Jafn­tefli niður­staðan eftir frá­bæra byrjun og vonin um að komast á­fram lítil

Runólfur Trausti Þórhallsson og Árni Jóhansson skrifa
Glódís Perla í leik dagsins. Dagný Brynjarsdóttir virkar ósátt út í dómara leiksins.
Glódís Perla í leik dagsins. Dagný Brynjarsdóttir virkar ósátt út í dómara leiksins. Vísir/Vilhelm

Svekkjandi 1-1 jafntefli niðurstaðan í leik Íslands og Ítalíu í D-riðli Evrópumóts kvenna í fótbolta eftir frábæra byrjun íslenska liðsins. Eftir það komst liðið í raun aldrei úr skotgröfunum á endanum var liðið mögulega heppið að ná í stig. Liðið á enn möguleika að komast í 8-liða úrslit EM en þeir eru litlir eftir úrslit dagsins. 

Þorsteinn Halldórsson gerði eina breytingu á byrjunarliði Íslands frá jafnteflinu gegn Belgíu. Elísa Viðarsdóttir kom inn í hægri bakvörðinn fyrir Sif Atladóttur. Annars var liðið nákvæmlega eins og í fyrsta leik mótsins.

Byrjunarlið Íslands í dag.Vísir/Vilhelm

Leikurinn gat vart byrjað betur en Ísland vann innkast ofarlega á vellinum strax á þriðju mínútu. Sveindís Jane Jónsdóttir grýtti boltanum inn á teig þar sem Glódís Perla Viggósdóttir var í baráttunni. 

Boltinn féll til jarðar inn í teig þar sem Karólína Lea Vilhjálmsdóttir mætti og smellti honum rakleiðis upp í samskeytin. Staðan orðin 1-0 og bláa hafið í stúkunni gjörsamlega missti kúlið.

Þessi söng í netinu.Vísir/Vilhelm

Það var ljóst að Ítalía þyrfti mark og sótti liðið af krafti framan af fyrri hálfleik. Sandra Sigurðardóttir og varnarlína Íslands stóð hins vegar vaktina vel sem og miðverðir íslenska liðsins. Staðan hins vegar 1-0 í hálfleik.

Það breyttist lítið í síðari hálfleik og þó Þorsteinn hafi gert tvöfalda skiptingu áður en klukkutími var liðinn þá tókst Ítalíu samt að jafna metin. Valentina Bergamaschi með markið eftir vel útfærða sókn ítalska liðsins upp hægri kantinn þar sem boltinn var skorinn út í teiginn og Bergamaschi þrumaði boltanum í netið.

Valentina Bergamaschi fagnar marki sínu.Tullio M. Puglia/Getty Images

Bæði lið fengu fín færi til að klára leikinn. Karólína Lea, Alexandra Jóhannsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir fengu allar góð færi fyrir íslenska liðið sem því miður rötuðu ekki á markið. Alexandra hefur verið dugleg að koma sér í færi er hún kemur af bekknum en því miður fóru þau forgörðum.

Á sama tíma fékk Ítalía fullt af fínum færum en Sandra varði meistaralega í markinu og hélt Íslandi inn í leiknum. Skiptingar íslenska liðsins virkuðu því miður ekki og leikurinn fjaraði út í 1-1 jafntefli sem skilur íslenska liðið í vægast sagt erfiðri stöðu.

Lokaleikur Íslands í riðlinum er gegn Frakklandi og sem stendur þyrfti Ísland sigur þar til að fara áfram. Það gæti þó farið svo að jafntefli dagsins í dag dugi ef Frakkland pakkar Belgíu saman í kvöld og Belgía gerir svo jafntefli við Ítalíu í lokaleik riðilsins.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira