Fótbolti

Bólusettum leikmönnum bannað að spila fyrir Steaua Bucharest

Atli Arason skrifar
Gigi Becali, eigandi FC Steaua Bucharest.
Gigi Becali, eigandi FC Steaua Bucharest. Getty Images

Gigi Becali, eigandi rúmenska fótboltaliðsins Steaua Bucharest, hefur gefið það út að þeir leikmenn sem hafa fengið bólusetningu gegn Covid-19 muni ekki leika aftur fyrir félagið.

Félagið muni einnig banna þeim leikmönnum sem hafa fengið bólusetningu að leika fyrir liðið í framtíðinni. Becali segir að þeir leikmenn sem hafa fengið bólusetningu séu kraftlausir og því ekki hæfir til þess að leika fyrir Steaua Bucharest.

„Þið munið kannski hlægja af mér en ég gæti alveg haft rétt fyrir mér. Þeir sem eru bólusettir missa styrk sinn,“ sagði Becali við rúmenska miðilinn Sport.ro.

Becali skaut einnig á leikmann Steaua Bucharest, framherjann Claudiu Keseru. Becali segir að Keseru geti ekki spilað fótbolta lengur vegna þess að Keseru fékk bólusetningu gegn Covid-19. Becali sem er rúmenskur viðskiptamaður og fyrrum stjórnmálamaður hefur oft lýst yfir andstöðu sinni gegn bólusetningum og hefur látið eftir sér áður að þau sem þiggja bólusetningu eru líklegri til að deyja en þau sem fá ekki bólusetningu.

Ummæli Becali hafa vakið hörð viðbrögð í Rúmeníu. Yfirvöld í Rúmeníu segja engar vísbendingar um að bólusetningar hafi áhrif á frammistöðu fótboltamanna á leikvellinum. Engar rannsóknir séu til sem styðja yfirlýsingar Becali.

Samkvæmt tölfræðivefnum Statista eru 86,52 af hverjum 100 Rúmenum bólusettir, sem er næst lakasta bólusetningar hlutfallið í Evrópu á eftir Búlgaríu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×