Innlent

Ná í fyrsta lagi í vélina seint í næstu viku

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Oddur Árnason á vettvangi í gær.
Oddur Árnason á vettvangi í gær. V'isir

Miðað við fyrirliggjandi veðurspá er útlit fyrir að veðurskilyrði til þess að hefja aðgerðir við að ná flugvélinni sem fannst á botni Þingvallavatns í nótt upp á yfirborðið verði ekki til staðar fyrr en í seinni hluta næstu viku.

Þetta staðfestir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn í samtali við Vísi.

„Það er langtímaspá og á þessum árstíma er erfitt að treysta á hana, en fyrsta gisk er seinni hluti næstu viku.“

Lögregla og Landhelgisgæslan hafa gefið það út að til þess að hægt verði að ná vélinni upp þurfi minnst tveggja sólarhringa glugga af hagstæðum veðurskilyrðum, ef vel á að ganga. Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að um sé að ræða tæknilega erfiða aðgerð og að henni fylgi umtalsverðar hættur fyrir björgunarfólk.

Aðstandendur komnir til landsins

Aðstandendur erlendu ferðamannanna sem voru um borð í flugvélinni eru komnir hingað til lands eða á leiðinni. Oddur segir lögreglu vera með tengilið við aðstandendurna og að vel sé haldið utan um þá af fagaðilum.

„Þannig að það er í farvegi bara,“ segir Oddur en kvaðst ekki geta greint frá þjóðerni ferðamannanna.

„Við ætlum að eiga samtalið við þessar fjölskyldur og gefa upplýsingar í samræmi við þeirra óskir. Sjáum bara til hvert það leiðir okkur.“

Ferðamennirnir þrír, sem voru í vélinni ásamt íslenskum flugmanni, voru hluti af stærri hópi sem ferðaðist hingað til lands. Oddur hefur hins vegar ekki upplýsingar um hvort hópurinn sem ferðamennirnir tilheyrðu sé farinn af landi brott, í heild eða hluta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×