Handbolti

Haukar sigruðu Ragnarsmótið á Selfossi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ríkjandi deildarmeistarar Hauka sigruðu Ragnarsmótið á Selfossi í dag.
Ríkjandi deildarmeistarar Hauka sigruðu Ragnarsmótið á Selfossi í dag.

Leikið var til úrslita á Ragnarsmótinu í handbolta á Selfossi í dag, en spilað var um fyrsta, þriðja og fimmta sætið. Ríkjandi deildarmeistarar Hauka höfðu betur gegn Fram í úrslitaliknum, 27-20.

Ragnarsmótið á Selfossi er haldið ár hvert til minningar um Ragnar Hjálmtýsson sem lést í bílsslysi árið 1988, þá aðeins 18 ára gamall. Ragnar þótti einn af efnilegri handboltamönnum Selfoss, en þetta var í 33. sinn sem mótið var haldið.

Fyrsti leikur dagsins var viðureign Stjörnunar og Aftureldingar sem léku um fimmta sætið. Stjarnan fór inn í hálfleikinn með tveggja marka forskot, 15-13.

Stjarnan var sterkari aðilinn í síðari hálfleik og fór að lokum með fimm marka sigur af hólmi. Lokatölur 31-26, þar sem Hafþór Már Vignisson og Leó Snær Pétursson skoruðu sx mörk hvor fyrir þá bláklæddu. Árni Bragi Eyjólfsson og Hamza Kabouti skoruðu átta mörk hvor fyrir Aftureldingu.

Það var Suðurlandsslagur í öðrum leik dagsins þegar að gestgjafarnir frá Selfossi mættu ÍBV. Jafnt var þegar flautað var til hálfleiks, 16-16, en Eyjamenn náðu fljótt fjögurra marka forskoti í seinni hálfleik.

Selfyssingar náðu aldrei að brúa það bil og ÍBV vann að lokum fimm marka sigur, 30-25. Nökkvi Snær Óðinsson skoraði átta mörk í liði Eyjamanna, en í liði heimamanna voru það Alexander Már Egan og Ragnar Jóhansson sem voru atkvæðamestir með sjö mörk hvor.

Lokaleikur dagsins var úrslitaviðureign Hauka og Fram. Sá leikur náði aldrei að verða spennandi, en Haukar skoruðu sex af fyrstu átta mörkum leiksins.

Þegar komið var að hálfleik var staðan orðin 17-6. Haukar náðu mest 14 marka forskoti í stöðunni 22-8, en þá slökuðu þeir aðeins á sóknarleiknum. Lokatölur 27-20 og Haukar fara því með bikarinn í farteskinu yfir Hellisheiðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×