Handbolti

Kennir sjálfum sér um ó­farir Gísla

Sindri Sverrisson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson og þjálfarinn Bennet Wiegert þurftu að taka ákvörðun í gær um hvort Gísli myndi spila, þrátt fyrir að vera tæpur vegna meiðsla.
Gísli Þorgeir Kristjánsson og þjálfarinn Bennet Wiegert þurftu að taka ákvörðun í gær um hvort Gísli myndi spila, þrátt fyrir að vera tæpur vegna meiðsla. Getty/Marco Wolf

Bennet Wiegert, þjálfari þýska handboltafélagsins Magdeburg, viðurkennir að Gísli Þorgeir Kristjánsson hafi ekki getað æft í aðdraganda leiksins við Álaborg í gær. Meiðsli hans í leiknum séu á endanum á ábyrgð þjálfarans.

Magdeburg og Álaborg mættust í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld og vann Magdeburg nauðsynlegan 32-31 sigur í baráttunni um að komast upp úr sínum riðli og í 12-liða úrslit keppninnar.

Gísli hóf leikinn en eftir aðeins örfáar mínútur fór hann meiddur af velli, augljóslega sárkvalinn, en þýskir miðlar segja að um ökklameiðsli sé að ræða. Wiegert hefur nú viðurkennt að hafa vísvitandi teflt á tvær hættur varðandi Gísla.

„Hann var tæpur fyrir leikinn og hafði ekki æft alla vikuna. Við reyndum að gera hann leihkæfan en það kom svo í ljós að þetta var of snemmt,“ sagði Wiegert við Sport Bild.

„Þetta angrar mig en svona ákvarðanir þarf að taka í keppnisíþróttum. Ég ber alltaf endanlega ábyrgð,“ sagði Wiegert en tók fram að Gísli hefði sjálfur viljað spila leikinn.

„Ég neyði engan til að spila. En það koma upp aðstæður þar sem maður þarf að bremsa leikmanninn af. Kannski gerði ég það ekki nógu mikið,“ sagði Wiegert.

Magdeburg er núna án sjö leikmanna vegna meiðsla og í þeim hópi eru einnig Ómar Ingi Magnússon, Albin Lagergren, Christian O'Sullivan, Philipp Weber, Manuel Zehnder og Oscar Bergendahl. Wiegert var því ekki í auðveldri stöðu þegar hann þurfti að taka ákvörðun um hvort Gísli myndi spila í gær, sérstaklega í ljósi hættunnar á að Magdeburg félli úr keppni:

„Það vita allir hve mikilvæg stigin í Meistaradeildinni eru. Hversu mikilvæg stigin í þýsku deildinni eru fyrir okkur. Svona er þetta í keppnisíþróttum og þetta neyðir mann stundum til að gera hluti þegar þörf hefði verið fyrir aðeins meiri þolinmæði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×