Upp­gjörið og við­töl: HK - KA 33-29 | HK steig stórt skref í átt að sæti í úr­slita­keppninni

Hjörvar Ólafsson skrifar
Sigurður Jefferson Guarino skoraði fimm mörk fyrir HK og fagnaði vel í kvöld.
Sigurður Jefferson Guarino skoraði fimm mörk fyrir HK og fagnaði vel í kvöld. VÍSIR/VILHELM

HK bar sigurorð af KA þegar liðin áttust við í 18. umferð Olís-deildar karla í handbolta í Kórnum í Kópavogi í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 33-29 HK-ingum í vil í leik þar sem heimamenn voru í bílstjórasætinu allt frá upphafi til loka.

HK náði fjögurra marka forystu fljótlega í leiknum og munurinn var þar í kring það sem eftir lifði fyrri hálfleiksins. Þegar leikmenn liðanna gengu til búningsherbergja í hálfleik munaði einmitt fjórum mörkum á liðunum.

Hjörtur Ingi Halldórsson var með sex mörk fyrir HK í kvöld.VÍSIR/VILHELM

Sama mynstur hélst í seinni hálfleiknum og KA-menn náðu aldrei að velgja HK-ingum almennilega undir uggum. Munurinn varð mestur sjö mörk, 28-21, um miðbik seinni hálfleiksins.

Leikurinn var mjög mikilvægur í slag liðanna um sæti í úrslitakeppni deildarinnar en fyrir þessa viðureign sat HK í áttunda sætinu með 14 stig en KA var sæti neðar með 12 stig.

KA hafði betur í leik liðanna í fyrri umferðinni en norðanmenn fóru með 35-34 sigur af hólmi þegar liðin áttust við norðan heiða um miðjan októbermánuð á síðasta ári. 

Andri Þór Helgason kominn inn úr horninu.VÍSIR/VILHELM

HK, sem hefur farið með sigur af hólmi í fjórum af síðustu fimm deildarleikjum sínum, hefur því fjögurra stiga forskot á KA þegar fjórar umferðir eru eftir af deildarkeppninni sem og vinninginn þegar kemur að innbyrðisviðureignum liðanna. 

Fari svo að HK komist í úrslitakeppnina verður það í fyrsta skipti sem það gerist síðan liðið varð Íslandsmeistari árið 2012. Sá Íslandsmeistaratitill er sá eini í sögu félagsins í handbolta karla. 

Halldór Jóhann Sigfússon gæti verið á leið með HK í úrslitakeppnina.VÍSIR/VILHELM

Halldór Jóhann: Áframhald á góðri siglingu eftir áramót

„Við settum tóninn strax í upphafi leiksins og misstum aldrei dampinn í spilamennsku okkar. Mér fannst vörnin heilt yfir sterk í þessum leik. Fyrir utan stuttan kafla í seinni hálfleik þar sem þeir skora tvö-þrjú mörk í röð þá var bara þetta bara solid frammistað bæði í vörn og sókn,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari HK, sáttur að leik loknum. 

„Við höfum spilað vel eftir áramót og náð að sigra í þremur af fjórum leikjum okkar. Auk þess spiluðum vel þegar við töpuðum á móti Aftureldingu í síðustu umferð. Við höfum veri að vinna í basic hlutum bara frá því í júlí. Spila þétta vörn og fækka töpuðum boltum í sóknarleiknum. Flóknara er það svo em sem ekki,“ sagði Halldór Jóhann um stöðu mála hjá HK-liðinu. 

„Tæknifeilunum er að fækka frá því á síðustu tímabilum og fyrir áramót og þetta er allt á réttri leið. Við settum okkar það markmið að koma okkur í úrslitakeppninna fyrir þessa leiktíð og við erum á góðri vegferð það að takast að ná því sem lagt var upp með. Það er góður bragur á liðinu og mér líst bara vel á lokasprettinn í deildarkeppninni,“ sagði hann um framhaldið. 

Halldór Stefán: Náðum ekki upp almennilegri vörn

„Við komum flatir inn í þennan leik og það tókst aldrei að ná upp almennilegri festu í varnarleikinn og því fór sem fór. Þeir náðu frumkvæðinu strax í upphafi og við náðum ekki upp nógu góðri vörn til þess að fá þau auðveldu mörk sem hefði þurft til að komast inn í leikinn,“ sagði Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari KA, svekktur. 

„Sóknarleikurinn var fínn lunngann úr leiknum og við skoruðum alveg nóg til þess að ná í stigin tvö. Það var samvinna varnar og markvörslu sem gerði það að verkum að við töpuðum þessu að mínu mati. Við vorum komnir á gott ról með varnarleikinn okkar með Bjarna Ófeigi og Daða og Patreki og Einari Birgi að leysa þá af fyrir áramót. 

Það er gott að fá Bjarna Ófeig aftur inn í mixið og hann spilaði líklega aðeins meira en hann mátti í þessum leik. Hann mun styrkja okkur í framhaldinu. Við teljum okkur enn eiga góða möguleika á því að komast í úrslitakeppnina. Við erum sterkir á heimavelli og teljum okkar eiga útileiki þar sem stig eru innan seilingar. Það er mitt að finna leiðir til að snúa taflinu við í komandi verkefnum okkar,“ sagði Halldór Stefán enn fremur upplitsdjarfur þrátt fyrir tapið. 

Halldór Stefán Haraldsson á hliðarlínunni í Kórnum í kvöld.VÍSIR/VILHELM

Atvik leiksins

Jovan Kukobat átti góðan leik í marki HK en hann varði 12 skot auk þess sem hann skoraði eitt mark. Undir lok leiksins varði hann skot og skoraði svo með skoti í autt mark KA-manna. Með því marki slökkti hann þann daufa vonarneista sem var hjá hans fyrrverandi liði um að koma sér inn í leikinn. 

Stjörnur og skúrkar

Hjörtur Ingi Halldórsson fór mikinn í fyrri hálfleik þar sem hann skoraði öll sex mörkin sem hann lagði í púkkinn í leiknum. Mörk hans sem voru í öllum regnbogans litum lögðu grunninn að því að ná þeirri forystu sem HK lét svo aldrei af hendi. 

Sigurður Jefferson Guarin var svo illviðráðanlegur inni á línunni hjá HK en þessi stæðilegi leikmaður skilaði fimm mörkum sem og góðri varnarvinnu. Þá var Leó Snær Pétursson öryggið uppmálað úr skotum sínum bæði úr horninu sem og af vítalínunni. 

Dagur Árni Heimisson skorar hér eitt af 10 mörkum sínum í leiknum. Vísir/Vilhelm

Dagur Árni Heimisson var langsamlega fremstur meðal jafningja hjá KA-liðinu en hann setti 10 mörk auk þess sem hann lagði lóð á vogarskálina hjá gestunum með stoðsendingum og fiskuðum vítaöstum sem Einar Rafn Eiðsson sá um að skila rétta leið í netmöskvana.  

Ágúst Guðmundsson sækir á KA-vörnina.VÍSIR/VILHELM

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins þeir, Magnús Kári Jónsson og Kári Garðarson, stóðu sína plikt af stakri prýði eins og þeim er von og vísa. Þeir fá átta í einkunn fyrir vel unnin störf sín. 

Stemming og umgjörð

Það var bara fínasta stemming í Kórnum í kvöld og heimamenn voru rækilega studdir af stuðningsmönnum sínum sem voru á öllum aldri. Umgjörðin upp á 10,5 hjá heimamönnum sem voru með allt í teskeið þegar kom að utanumhaldi þessa skemmtilega leiks. 

Patrekur Stefánsson fórnar höndum eftir tveggja mínútna brottvísun.VÍSIR/VILHELM

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira