Atvinnulíf

Starfsframinn: Að vinna eins og forstjóri

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það getur verið ágætis leið að þróast í starfi að prófa að sinna starfinu eins og stjórnandi myndi gera.
Það getur verið ágætis leið að þróast í starfi að prófa að sinna starfinu eins og stjórnandi myndi gera. Vísir/Getty

Það er oft sagt að vinnuveitendur falist sérstaklega eftir starfsfólki sem kann að sýna gott frumkvæði í starfi. Enda ekki nema von. Starfsmaður sem sýnir dugnað, afkastagetu og frumkvæði er oftast starfsmaður sem stjórnandi þarf lítið að hafa áhyggjur eða afskipti af. Sem aftur gerir viðkomandi að eftirsóttum starfsmanni. Og hver vill ekki teljast eftirsóttur starfsmaður?

En hvernig getum við þjálfað okkur í að verða eftirsótt til vinnu?

Jú, ein leiðin er að sinna starfinu okkar eins og stjórnandi myndi gera. Hér eru fimm atriði sem hver og einn getur æft sig í.

1. Að sýna (oftar) frumkvæði

Það segir enginn forstjóranum hvað hann á að gera á daginn en starf stjórnenda er langt frá því að felast í verkefnum sem aðeins teljast spennandi og skemmtileg.

Hér er mælt með því að fólk sýni frumkvæði, þótt það þýði að stundum þurfi að fara út fyrir þægindarrammann. T.d. að bjóðast til að taka að sér verkefni sem þér finnst ekki spennandi eða jafnvel erfið. En þú gerir þau samt.

2. Að vera hvetjandi liðsmaður

Samstarf og samvinna er eitthvað sem samstarfsfólkið þitt þarf að upplifa frá þér alla vinnudaga. 

Að hlusta á samstarfsfólkið þitt, bjóða fram aðstoð ef þarf, hrósa, hvetja og sýna verkefnum annarra áhuga eru allt atriði sem skipta máli. Að hugleiða traust í þessu samhengi er mikilvægt  og ekki sjálfgefið. Samstarfsfólkið þitt þarf að treysta þér fyrir verkefnum.

3. Að biðja um aðstoð

Góðir leiðtogar kunna að biðja um aðstoð. Enda er enginn okkar sem veit allt, kann allt eða getur allt. Lykilatriði er því að biðja um aðstoð í vinnunni þegar þú þarft á að halda. Sumir veigra sér við þessu, kannski af feimni en stundum af óöryggi. Það þarf hins vegar enginn að skammast sín fyrir það að biðja stundum um aðstoð. Þvert á móti getur það að biðja um aðstoð verið góð leið til að sýna samstarfsfólkinu þínu að þú ert fús til að læra eitthvað nýtt. 

4. Að hlusta

Eitt af lykilatriðum stjórnenda er að kunna að hlusta vel. Að hlusta, afla upplýsinga og taka upplýsta ákvörðun í framhaldinu. Þetta á reyndar við um öll störf. Sölumaður lærir til dæmis fljótt að til að ná árangri í sölu þarf hann fyrst og fremst að hlusta á það hvað viðskiptavinurinn vill eða hverju hann er að leita eftir. 

Að kunna að hlusta vel skilar alltaf góðum árangri. 

Að sama skapi þurfum við að spyrja spurninga ef og þegar þess þarf. Fólk sem veigrar sér við því að spyrja spurninga, t.d. af feimni eða óöryggi, þarf að þjálfa sig í að spyrja. Þeir sem eru duglegir við að spyrja spurninga, þurfa að passa sig á að hlusta fyrst og spyrja svo. Því margir falla í þá gryfju að hlusta ekki en grípa frammí með spurningum. 

5. Að taka af skarið

Daglega þurfa stjórnendur að taka af skarið með eitthvað. Það sama þarft þú að gera sem starfsmaður. 

Þetta gæti stundum þýtt að þér finnist eins og þú sért að taka einhverja „áhættu." Þessi tilfinning skýrist reyndar oftast af óttanum við að gera mistök. En til að þróast áfram í starfi er það alltaf reynslan sem skilar mestu. Líka sú reynsla að læra af mistökum sínum.


Tengdar fréttir

Kapphlaupið við tímann í vinnunni

Það kannast flestir við kvíðahnútinn sem getur myndast í maganum því við erum að drepast úr stressi í vinnunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×