Viðskipti innlent

Stofnandinn búinn að eignast Mandi á ný

Atli Ísleifsson og Oddur Ævar Gunnarsson skrifa
Veitingastaður Mandi opnaði á ný við Ingólfstorg í dag.
Veitingastaður Mandi opnaði á ný við Ingólfstorg í dag. Vísir/Lýður

Hlal Jarah, stofnandi Mandi, er búinn að eignast veitingastaðinn á ný. Staðurinn við Ingólfstorg í Reykjavík opnaði aftur fyrr í dag eftir að hafa verið lokaður síðustu daga.

Greint var fá því á Facebook-síðu Mandi þann 26. mars síðastliðinn að stöðunum hafi verið lokað vegna skipulagsbreytinga.

Mandi hefur síðustu ár boðið viðskiptavinum upp á mið-aust­ur­lensk­an mat á veitingastöðum sínum á Ingólfstorgi, Faxafeni, Hæðasmára í Kópavogi og í Kringlunni, auk þess að reka veisluþjónustu.

Hlal segir í samtali við fréttastofu að staðurinn á Ingólfstorgi hafi opnað aftur í dag og að vonast sé til að hægt verði að opna staðinn í Faxafeni aftur innan fárra vikna.

Aðspurður um hvort að viðskiptavinir megi eiga von á breytingum segir Hlal að engar breytingar verði gerðar til að byrja með. Vilji viðskiptavinir sjá breytingar verði hins vegar að sjálfsögðu hlustað á þá.

Veitingafélagið ehf, sem á meðal annars Hlöllabáta, eignaðist Mandi af Hlal og félagi hans í lok sumars 2022, og er staðurinn því nú aftur kominn í hendur stofnandans. 

Vísir/Lýður

Tengdar fréttir

Stofnandi Mandi dæmdur fyrir líkamsárás

Hlal Jarah, stofnandi og fyrrverandi eigandi veitingastaðarins Mandi, hefur verið dæmdur í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás sem átti sér stað á öðrum degi jóla 2020 þar sem hann veittist að konu, sló hana í höfuðið og sparkaði í maga hennar. Honum ber að greiða 400 þúsund krónur í miskabætur og allan sakarkostnað málsins sem nemur rúmum 2,2 milljónum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×