Viðskipti erlent

Færri fara til Banda­ríkjanna en fækkunin hvað mest frá Ís­landi

Samúel Karl Ólason skrifar
Empire State byggingin er vinsæll viðkomustaður ferðamanna í New York.
Empire State byggingin er vinsæll viðkomustaður ferðamanna í New York. Getty/Drew Angerer

Evrópskum ferðamönnum hefur snarfækkað í Bandaríkjunum frá því Donald Trump tók við embætti forseta. Fækkunin er hvað mest þegar kemur að ferðamönnum frá Íslandi en ástæðan er að miklum hluta rakin til umdeildra aðgerða og ummæla Trumps, sem sagðar eru ógna arðbærum flugleiðum.

Ferðaþjónustuiðnaður Bandaríkjanna samsvarar um 2,5 prósentum af vergri landsframleiðslu. Hagsmunasamtök hafa varað við því að eftirspurn eftir gistingu og flugferðum yfir Atlantshafið hafi minnkað mjög.

Í mars fækkaði evrópskum ferðamönnum sem gistu að minnsta kosti eina nótt í Bandaríkjunum um sautján prósent, borið saman við mars í fyrra. Ferðamönnum frá mörgum ríkjum fækkaði um meira en tuttugu prósent en samkvæmt gögnum sem blaðamenn Financial Times skrifuðu um var fækkunin mest þegar kemur að ferðamönnum frá Íslandi og Danmörku.

Þó er tekið fram í greininni að páskar voru í mars í fyrra og það gæti útskýrt að hluta til hve mikil fækkunin er.

Einn þeirra blaðamanna sem skrifaði grein FT talaði um það á X að mistök hefðu verið gerð varðandi línurit Íslands. Samdrátturinn hefði verið svo mikill að hann hefði ekki passað í upprunalega línuritið sem fylgdi fréttinni.

Sérfræðingur sem FT ræddi við segir þó ljóst á öllum gögnum að ferðamönnum hafi fækkað verulega, hvort sem þeir komi með flugvélum frá Evrópu eða yfir landamæri Bandaríkjanna og Kanada.

„Það er augljóst að eitthvað er að gerast og það eru viðbrögð við Trump,“ sagði forsvarsmaður hagsmunasamtaka ferðaþjónustuaðila við blaðamenn FT.

Sjá einnig: Ferðalagið að engu orðið vegna reglna um trans fólk

Einn viðmælandi FT frá Bretlandi sagði að á einungis tveimur mánuðum hefði Trump valdið Bandaríkjunum gífurlegum ímyndarskaða. Mögulega gæti það tekið margar kynslóðir að bæta þennan skaða.

Fregnir af slæmri meðferð ferðalanga við komuna til Bandaríkjanna hafa einnig dregið úr vilja fólks til að ferðast þangað.

Sjá einnig: Snúið við á vellinum vegna gagnrýni á Trump

Wall Street Journal sagði frá því á dögunum að forsvarsmenn flugfélaga í Kanada væru að leita annarra áfangastaða eftir mikinn samdrátt í eftirspurn eftir flugferðum til Bandaríkjanna. Í staðinn sé byrjað að bjóða upp á fleiri ferðir til Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×