Viðskipti erlent

Kemur til móts við bíla­fram­leið­endur vegna tolla

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Hvíta húsið/Abe McNatt

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætlar að koma til móts við bílaframleiðendur þar í landi og reyna að milda áhrif tolla hans á starfsemi þeirra. Þannig vill hann gefa þeim meiri tíma til að flytja framleiðslu aftur til Bandaríkjanna en Trump ætlar þó að halda háum tollum á innflutta bíla og bílaíhluti.

Tuttugu og fimm prósenta tollur á innflutta bíla tók gildi í apríl en næstkomandi laugardag mun þessi tollur einnig ná yfir innflutta bílaíhluti.

Tollarnir eiga að vera áfram til staðar en samkvæmt frétt Wall Street Journal ætlar Trump að ganga úr skugga um að bílaframleiðendur fá undanþágu gagnvart öðrum tollum eins og tollum á stál og ál.

Þar að auki eigi bílaframleiðendur að fá endurgreiðslur vegna tolla á bílaíhluti. Þær greiðslur eiga að vera allt að 3,75 prósent af virði bíls í eitt ár. Hlutfallið fellur svo í 2,5 prósent í ár til viðbótar.

Bílaiðnaður Bandaríkjanna er mjög samofinn iðnaði Kanada og Mexíkó. Hver bíll sem framleiddur er í Bandaríkjunum er settur saman úr íhlutum sem margir eru framleiddir í Mexíkó og Kanada og má segja að hver bíll fari margsinnis yfir landamærin áður en hann endar á bílasölu vestanhafs.

Búist er við að Trump muni opinbera þessar ætlanir sínar í dag, fyrir ferð til Detroit í kvöld.

Vonast er til þess að bílaframleiðendur geti notað þennan tíma til að endurskipuleggja aðfangakeðjur sínar og færa framleiðslu bíla og íhluta til Bandaríkjanna.

Forsvarsmenn stærstu bílafyrirtækja Bandaríkjanna hafa lýst yfir ánægju með þessar ætlanir.

Verðhækkanir í vændum

Greinendur búast fastlega við því að bílaverð muni hækka töluvert í Bandaríkjunum. Starfsmenn Morgan Stanley hafa til að mynda sagt að meðalverð bíls gæti hækkað um sex þúsund dali, sem samsvarar um tíu til tólf prósenta hækkun.

New York Times segir að þessar hækkanir muni eiga við bæði nýja og gamla bíla. Viðgerðarkostnaður muni einnig aukast og tryggingargjöld hækka.

Trump hefur beitt fjölmörgum og umfangsmiklum tollum frá því hann tók við embætti forseta í janúar. Í mörgum tilfellum hefur hann í kjölfarið breytt um stefnu, lækkað tolla, seinkað þeim eða fellt niður og hafa tollarnir og vendingarnar kringum þá leitt til mikillar óreiðu á mörkuðum um heiminn allan.

Sjá einnig: Gefur eftir í tollastríði við Kína

Skoðanakannanir sem framkvæmdar hafa verið vestanhafs undanfarna daga, í tilefni af hundrað daga embættistíð Trumps, sýna að kjósendur eru flestir ósáttir við framgöngu forsetans.

Fleiri segja hann hafa staðið sig illa í embætti en segja hann hafa staðið sig vel. Þá hafa kjósendur sérstaklega áhyggjur af því að Trump hafi tekið sér of mikil völd og meiri völd en stjórnarskrá Bandaríkjanna veiti honum.

Í nýlegri könnun NYT sögðust 55 prósent kjósenda ósáttir við tolla Trumps en þegar kom að svokölluðum óháðum kjósendum var hlutfallið 65 prósent.


Tengdar fréttir

Car­n­ey og Frjáls­lyndir fóru með sigur af hólmi

Frjálslyndi flokkurinn í Kanada, flokkur forsætisráðherrans Marks Carney, fór með sigur af hólmi í kanadísku þingkosningunum sem fram fóru í gær. Enn er of mjótt á munum til að skera úr um hvort Frjálslyndir hafi náð meirihluta í þinginu eða hvort þeir verði að treysta á stuðning frá minni flokkum.

Hvetur Kanadamenn að kjósa sig

Kjördagur er í Kanada þar sem Frjálslyndi flokkurinn og Íhaldsflokkurinn keppast um meirihluta atkvæðanna. Ákvarðanir Bandaríkjaforseta lituðu kosningabaráttuna en hann gaf í skyn að kjósendur ættu að kjósa hann.

Áætlun Trump gangi engan veginn upp

Hagkerfið er byrjað að kólna og gæti stefnt í kreppu sem að mestu má rekja til breyttrar en óljósrar stefnu Bandaríkjastjórnar í efnahags- og tollamálum. Þetta segir Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×