Atvinnulíf

Að sporna við nei­kvæðum á­hrifum nei­kvæðra frétta

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það koma tímabil, eins og núna, þar sem meira og minna allar helstu fréttir virðast vera frekar neikvæðar. Og þá getur verið erfitt að halda einbeitingunni í vinnunni eða að missa sig ekki í áhyggjum og fréttafíkn. 
Það koma tímabil, eins og núna, þar sem meira og minna allar helstu fréttir virðast vera frekar neikvæðar. Og þá getur verið erfitt að halda einbeitingunni í vinnunni eða að missa sig ekki í áhyggjum og fréttafíkn.  Vísir/Getty

Það virðast stundum koma tímabil þar sem okkur finnst eiginlega eins og allt sé að fara fjandans til í fréttum.

Eins og núna; Trump og tollarnir. Allir sérfræðingarnir sem eru að segja okkur hversu slæmt þetta er fyrir okkur sem neytendur. Pfúff; hversu mikið mun allt hækka?

Evrópa að vígbúast.

Pólitíkin hér heima á fullu að rífast; Á ég að vera í liði með þessum eða hinum? Hvað finnst okkur um Ásthildar Lóu málið? Er Snorri Már að spúa hatri og trumpísku yfir heimsbyggðina? Hvað með veiðigjöldin?

Í ofanálag kemur eldgos. Með tilheyrandi fyrirsögnum í upphafi um hversu slæmt þetta virðist vera….

Sorgarfréttir um slys.

Gular og rauðar viðvaranir.

Er nema von að okkur takist ekki alltaf að vera með hugann alveg við vinnuna?

Jafn stór liður það er hjá okkur flestum að fylgjast með fréttum fjölmiðla, snýst málið svolítið um að sporna við því að neikvæðar fréttir nái að hafa neikvæð áhrif á okkar líðan. Því svona tímabil koma reglulega, þar sem einfaldlega margt virðist vera í gangi í einu og já oft ekkert endilega hafsjór jákvæðra frétta.

Allt er þetta þó eðlilegt, því samkvæmt rannsóknum, hafa neikvæðar fréttir meiri áhrif á okkur andlega í samanburði við hlutlausar fréttir. Þannig geta neikvæðar fréttir aukið á kvíða og áhyggjur og því algjörlega eðlilegt af okkur að andvarpa stundum og spyrja: Hvar endar þetta eiginlega?

En við þessu eru samt auðvitað góð ráð eins og í öðru. Hér eru nokkur:

Taktu stjórnina

Það er hið besta mál að fylgjast með fréttum og þjóðfélagsumræðu. Og í raun sjaldnar jafn mikilvægt og nú þegar heimsmyndin er að breytast jafn hratt og raunin er. Þegar við fylgjumst með fréttum er hins vegar mikilvægt að við séum sjálf við stjórn. Þannig að okkur líði ekki eins og við séum í uppnámi nokkrum sinnum á dag því við stjórnumst af því sem er í fréttum hverju sinni. Hér skiptir því máli að taka stjórnina og setja okkur markmið um hvernig við viljum fylgjast með fréttir.  

Dæmi: Ekki að lesa fréttir rétt fyrir svefninn ef þér líður eins og fréttir séu að hafa neikvæð áhrif á þig.

Leitin að jákvæðu fréttunum

Við höfum öll heyrt af þessu sígilda góða ráði um að fókusera meira á það jákvæða en það neikvæða. Sem þó getur verið hægara sagt en gert. 

En hvernig væri að prófa þetta ráð með því að setja okkur það sem verkefni að rýna í og jafnvel telja hvar og hvenær við erum að sjá flestu jákvæðustu fréttirnar? 

Og skilgreina fyrir okkur sjálfum; Hvað í þessum fréttum gerir það að verkum að mér finnst þær svona jákvæðar og hverjar finnst mér skemmtilegastar? Með þessu náum við ekki aðeins að fókusera á þær jákvæðu, heldur gerum hugann of upptekinn til að festast í neikvæðum fréttum.

Fjölmiðlar ráða ekki yfir þinni líðan

En rétt eins og við viljum vera við stjórnina sjálf varðandi það hvernig við fylgjumst með fréttum, skiptir líka máli að við séum meðvituð um að það eru ekki fjölmiðlar sem eiga að stjórna því hvernig okkur líður. Sumir fjölmiðlar eru til dæmis mögulega að hafa neikvæðari áhrif á okkur en aðrir og hvað getum við gert þá? Nú, snúið okkar í meira mæli að öðrum miðlum.

Þitt eigið mótvægi…

Ef okkur líður eins og það sé allt að fara fjandans til. Eða í það minnsta að versna eða að taka frá okkur orku, skiptir líka máli að líta í eigin barm og velta fyrir okkur: Hvernig stend ég mig í minni sjálfsrækt? Hvað er ég að gera á hverjum degi sem mér finnst alltaf gaman, hvað hlakkar ég til að gera í dag, hvernig er ég að hlúa að sjálfri/sjálfum mér?

Sjálfsrækt er partur af daglegu lífi til að endurhlaða okkar eigin batterí. Því betur sem við hlúum að okkur sjálfum, því ólíklegra er að utanaðkomandi atriði, til dæmis neikvæðar fréttir, hafi áhrif á okkur.


Tengdar fréttir

Góð ráð: Draumastarfið á draumavinnustaðnum

Að vinna á draumavinnustaðnum er geggjuð upplifun. Að hlakka til hvers dags til að fara að vinna og upplifa daginn sem ánægjuna eina: Svo gaman að vinna, svo frábær vinnustaður.

Einföld leið til að nýta hugmyndavinnu oftar

Rithöfundar tala stundum um ritstíflu. Þar sem engin orð komast á blað. Engar nýjar hugmyndir verða til. Síðan gerist eitthvað sem leysir úr þessu og bang: Úr verður geggjuð bók!






Fleiri fréttir

Sjá meira


×