Fótbolti

Kristian kom inn í sínum fyrsta leik og Elías Már lék allan leikinn í tapi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kristian Hlynsson spilaði sinn fyrsta leik í hollensku B-deildinni í kvöld.
Kristian Hlynsson spilaði sinn fyrsta leik í hollensku B-deildinni í kvöld. Jonathan Moscrop/Getty Images

Hinn 16 ára gamli Kristian Hlynsson kom inn af varamannabekk varaliðs Ajax í fyrsta sinn í kvöld er liðið gerði jafntefli í hollensku B-deildinni. Elías Már Ómarsson lék allan leikinn er Excelsior tapaði á heimavelli fyrir Volendam.

Kristian gekk í raðir Ajax í janúar á þessu ári. Kom hann inn undir lok leiks er Jong Ajax, varalið Ajax, gerði 1-1 jafntefli við FC Eindhoven í kvöld. Jong Ajax er sem stendur í 11. sæti með 21 stig.

Þá lék Elías Már allan leikinn er Excelsior tapaði gegn Volendam á heimavelli í kvöld. Gestirnir komust yfir snemma í leiknum en Luigi Bruins jafnaði metin fyrir Excelsior á 17. mínútu og þegar rúmur hálftími var liðinn kom Siebe Horemans heimamönnum yfir.

Forystan entist ekki lengi og Martijn Kaars jafnaði metin í 2-2 aðeins tveimur mínútum síðar.

Boy Deul skoraði svo sigurmark leiksins á 88. mínútu og Volendam hirti stigin þrjú. Tapið þýðir að Excelsior er í 12. sæti með 20 stig, stigi minna en Jong Ajax.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×