Fótbolti

Rodrigu­ez skrifar undir hjá E­ver­ton á morgun | Doucoure og Allan á leiðinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ancelotti og Rodriguez þekkjast ágætlega en Ancelotti þjálfaði hann hjá Real Madrid sem og Bayern München.
Ancelotti og Rodriguez þekkjast ágætlega en Ancelotti þjálfaði hann hjá Real Madrid sem og Bayern München. Gonzalo Arroyo Moreno/Getty Images

Kólumbíski miðjumaðurinn James Rodriguez mun skrifa undir hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Everton á morgun ef marka má Phil McNulty, blaðamann BBC. Samkvæmt heimildum Sky Sports fór Rodriguez í læknisskoðun í dag.

Félagaskiptin hafa legið í loftinu í dágóðan tíma en Carlo Ancelotti – þjálfari Everton – þjálfaði Rodriguez hjá bæði Real Madrid og Bayern München.

Rodriguez væri fyrstu alvöru leikmannakaup Ancelotti síðan hann tók við stjórnartaumum Everton í desember á síðasta ári. Leikmaðurinn hefur verið í algjöru aukahlutverki hjá Real Madrid undanfarin misseri og var til að mynda lánaður til Þýskalandsmeistara Bayern.

Leikmaðurinn á aðeins ár eftir af samningi sínum við Real og því er talið að Everton fái hann fyrir í kringum 20 milljónir punda. Talið er að hinn 29 ára gamli Rodriguez skrifi undir þriggja ára samning við Bítlaborgarfélagið á morgun.

Rodriguez hefur aðallega spilað í „tíunni,“ það er að segja í holunni fyrir aftan sóknarmanninn. Síðan Ancelotti tók við hefur hann aðallega spilað hefðbundið 4-4-2 leikkerfi og því áhugavert að sjá hvort hann breyti um taktík með tilkomu Rodriguez eða hvort Kólumbíumaðurinn muni ef til vill leika á kantinum.

McNulty segir Everton einnig svo gott sem búið að fjárfesta í hinum 27 ára gamla Abdoulaye Doucoure, miðjumanni Watford, á 25 milljónir punda. Þá ku Allan, 29 ára miðjumaður Napoli, vera á leiðinni í raðir félagsins en Ancelotti þekkir hann frá tíma sínum með ítalska félagið.

Það er því ljóst að landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson mun eiga undir högg að sækja á komandi tímabili fyrst Ancelotti er að kaupa þrjá leikmenn sem spila allir sömu stöður og íslenski miðjumaðurinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×