Fótbolti

Segir KSÍ hafa verið margar vikur að undirbúa leikinn gegn Englendingum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar

Leikur Íslands og Englands í Þjóðadeildinni fer fram á laugardaginn kemur og hefur starfsfólk Laugardalsvallar staðið í ströngu undanfarna daga. Þó engir áhorfendur séu leyfðir er í mörg horn að líta þar sem UEFA [knattspyrnusamband Evrópu] hefur sett upp viðamikið regluverk í kringum komandi landsleiki.

Til að mynda verða allir sem mæta á Laugardalsvöll hitamældir.

Í Sportpakka Stöðvar 2 í kvöld ræddi Guðjón Guðmundsson - Gaupi - við Óskar Örn Guðbrandsson sem starfar hjá KSÍ, knattspyrnusambandi Íslands. Sér hann um framkvæmd leikja og verkefnastjórn á vegum sambandsins.

Sjá má allt innslagið í spilaranum hér að ofan.

„UEFA hefur gefið út mjög ítarlegt regluverk fyrir þessa leiki. Við erum búin að vinna í því í margar vikur að undirbúa þetta allt saman,“ segir Óskar Örn meðal annars.

„Það er til dæmis mjög skýrt kveðið á um svæðisskiptingu mannvirkisins, bæði innanhúss sem og út á velli. Hver má vera hvar, á hvaða tíma og annað slíkt. Þetta er mjög umfangsmikið og felur ýmislegt í sér varðandi ferðalög liðanna, skimanir, sótthreinsun á klefum og ýmislegt fleira.“

Það kemur nokkuð á óvart að enska liðið mun ekki æfa á vellinum fyrir leik.

„Þeir ætla að koma hingað með leiguflugi á föstudeginum, degi fyrir leik, og taka því æfinguna daginn fyrir leik í Englandi,“ sagði Óskar. 

Varðandi búningsklefa og blaðamenn

„Við erum svo heppin að við höfum skylmingasalinn í kjallaranum, alveg við búningsklefana. Við notum þann sal og stækkum búningsklefana þannig töluvert. Þannig getum við haldið tveggja metra fjarlægð inn í klefum og fá bæði lið aukið pláss miðað við það sem venjulega er.“

Það verður töluvert minna af erlendum blaðamönnum en venja er á leikjum íslenska landsliðsins.

„Það er blaðamannafundur eftir leik en ekki þetta almenna viðtalssvæði sem er alltaf eftir leiki,“ sagði Óskar Örn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×