Fótbolti

Chelsea fékk Harder fyrir eina hæstu upphæð sem greidd hefur verið fyrir knattspyrnukonu

Sindri Sverrisson skrifar
Pernille Harder skrifaði undir samning hjá Chelsea í dag.
Pernille Harder skrifaði undir samning hjá Chelsea í dag. VÍSIR/GETTY

Chelsea hefur fest kaup á einni bestu knattspyrnukonu heims; dönsku markamaskínunni Pernille Harder.

Harder, sem er góð vinkona Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, kemur til Chelsea frá Þýskalandsmeisturum Wolfsburg rétt eftir að hafa leikið með liðinu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Samkvæmt BBC er talið að kaupverðið nemi um 250.000 pundum, jafnvirði rúmlega 46 milljóna króna, og segir það vera eina hæstu upphæð sem greidd hafi verið fyrir knattspyrnukonu.

Harder er 27 ára gömul og skrifaði undir samning til þriggja ára við Chelsea. Hún vann, líkt og Sara, þýska meistara- og bikarmeistaratitilinn fjögur ár í röð með Wolfsburg. Hún var leikmaður ársins 2018 hjá UEFA og hefur skorað 61 mark í 118 landsleikjum fyrir Danmörku.

Harder varð markadrottning Þýskalands í ár með 27 mörk í 21 leik, og hún varð einnig markadrottning deildarinnar árið 2018 með 17 mörk.

Kærasta Harder, hin sænska Magdalena Eriksson, er fyrirliði Chelsea sem vann Samfélagsskjöldinn á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×