Fótbolti

Lýðveldið Kongó fyrsta Afríkulandið til að fresta fótboltaleikjum

Ísak Hallmundarson skrifar
Kórónuveiran heldur áfram að valda usla í íþróttum
Kórónuveiran heldur áfram að valda usla í íþróttum vísir/getty
Lýðveldið Kongó varð í dag fyrsta landið í heimsálfunni Afríku til að fresta keppni í fótbolta vegna Covid-19.

Langflestum fótboltadeildum í Evrópu, Mið- og Norður-Ameríku og Asíu hefur verið frestað en keppni hefur verið í fullum gangi í Afríku þar til Lýðveldið Kongó ákvað að fresta keppni.

Það mun þó ekki taka gildi fyrr en eftir helgi og verður leikið með óbreyttu sniði um helgina áður en deildin verður stöðvuð þann 16. mars og mun keppni ekki hefjast aftur fyrr en 15. apríl. 

Afríka er ekki talin til sérstaks áhættusvæðis vegna Kórónuveirunnar samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni en fyrir fjórum dögum greindist fyrsta smitið í Kongó og því var ákveðið að fresta deildinni í landinu. 

Í Egyptalandi, Marokkó og Alsír er spilað fyrir luktum dyrum þessa stundina og í Suður-Afríku og Tansaníu eru engin handabönd fyrir leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×