Fótbolti

Of kalt í Svíþjóð fyrir afrískan fótboltamann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Musa Noah Kamara þegar hann var boðinn velkominn til Trelleborg fyrir aðeins viku síðan.
Musa Noah Kamara þegar hann var boðinn velkominn til Trelleborg fyrir aðeins viku síðan. Mynd/Twittersíða Trelleborg FF
Framherjinn Musa Noah Kamara entist aðeins í eina viku í sænska fótboltanum en samningi hans og sænska liðsins Trelleborg hefur nú verið rift.

Hinn nítján ára gamli Musa Noah Kamara kemur frá Síerra Leóne og var nýbúinn að gera þriggja og hálfs árs samning við Trelleborgs FF sem spilar í sænsku b-deildinni.





Trelleborgs FF tilkynnti það á heimasíðu sinni að samningurinn væri ógildur vegna persónulegra ástæðna.

„Hann óskaði eftir því að fara aftur heim vegna persónulegra ástæðna,“ sagði í fréttatilkynningu Trelleborgs FF.

Kamara sjálfur útskýrði þetta með því að segja að hann vildi komast aftur til Freetown þar sem hann þoldi ekki kalda veðrið Svíþjóð. Trelleborg er alveg syðst í Svíþjóð rétt hjá Malmö.





Það er mitt sumar og því betra að hann fari strax en ekki þegar fer að kólna í haust. Hitastigið þessa stundina í Trelleborg er um tuttugu gráður þannig að það var eins gott að hann kom ekki til íslensks liðs.

Musa Noah Kamara var áður markahæsti leikmaðurinn í úrvalsdeild Síerra Leóne með 15 mörk og mörkin hans hjálpuðu East End Lions að vinna 2019 titilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×