Fótbolti

Zlatan fallið úr leik í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í átta af níu skiptum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zlatan gekk niðurlútur af velli á Etihad í kvöld.
Zlatan gekk niðurlútur af velli á Etihad í kvöld. vísir/getty
Zlatan Ibrahimovic lék hugsanlega sinn síðasta leik í Meistaradeild Evrópu á ferlinum þegar Paris Saint-Germain tapaði 1-0 fyrir Manchester City í seinni leik liðanna í 8-liða úrslitunum keppninnar í kvöld.

Liðin skildu jöfn, 2-2, í fyrri leiknum í París og því fara City-menn áfram, 3-2 samanlagt. Zlatan skoraði annað mark PSG í heimaleiknum en lét Joe Hart verja frá sér víti og klúðraði auk þess algjöru dauðafæri þegar hann slapp einn inn fyrir vörn City.

Þótt Zlatan hafi notið gríðarlegrar velgengni í þeim deildum sem hann hefur spilað í á ferlinum hefur honum ekki tekist jafn vel upp í Meistaradeildinni.

Zlatan hefur alls níu sinnum komist með liðum sínum í 8-liða úrslit keppninnar og átta sinnum fallið úr leik, oftar en nokkur annar leikmaður í sögu Meistaradeildarinnar. Fjórum sinnum féll sænski framherjinn úr leik í 8-liða úrslitunum sem leikmaður PSG, tvisvar með Juventus og einu sinni með Ajax og AC Milan.

Eina skiptið sem hann komst upp úr 8-liða úrslitunum var með Barcelona tímabilið 2009-10 en þá sló liðið Arsenal úr leik. Börsungar töpuðu svo fyrir Inter í undanúrslitunum.

Zlatan er að öllum líkindum á förum frá PSG eftir tímabilið og því er flest sem bendir til þess að von hans um að vinna Meistaradeildina sé úti.

Zlatan í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar:

2003: Ajax féll út fyrir AC Milan, 3-2

2005: Juventus féll út fyrir Liverpool, 2-1

2006: Juventus féll út fyrir Arsenal, 2-0

2010: Barcelona fór áfram gegn Arsenal, 6-3

2012: AC Milan féll út fyrir Barcelona, 3-1

2013: PSG féll út fyrir Barcelona, 3-3 (á útivallarmörkum)

2014: PSG féll út fyrir Chelsea, 3-3 (á útivallarmörkum)

2015: PSG féll út fyrir Barcelona, 5-1

2016: PSG féll út fyrir Manchester City, 3-2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×