Erlent

Bagdad skipt með múrveggjum

Óli Tynes skrifar
Frá Bagdad.
Frá Bagdad. MYND/AP

Verkfræðingasveit bandaríska hersins er að reisa varnarvegg um hverfi súnní múslima í Bagdad. Bygging hans er sögð lykilþáttur í nýrri áætlun til að rjúfa vítahring ofbeldis milli súnní og sjía múslima í borginni. Þetta er annar múrveggurinn sem byggður er um hverfi súnnía í höfuðborginni.

Talsmaður bandaríska hersins segir engu að síður að það sé ekki ætlunin að skipta borginni í hverfi með múrveggjum. Veggirnir eru þrír og hálfur metri á hæð og nokkurra kílómetra langir. Þar sem eru hlið á þeim verða íraskir hermenn við öryggisgæslu.

Tilgangurinn er sagður sá að hindra sjía múslima í að gera árásir inn í hverfi súnnía. Og að hindra súnnía í að gera gagnrárásir. Hin innmúruðu hverfi eru sögð tryggja öryggi íbúanna. Nema náttúrlega fyrir vörpusprengjum. Og handsprengjum. Og eldflaugum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×