Erlent

Gera um­fangs­miklar á­rásir í Líbanon

Samúel Karl Ólason skrifar
Herforingjar Ísrael tilkynntu í dag árásir gegn Hezbollah í suðurhluta Líbanon.
Herforingjar Ísrael tilkynntu í dag árásir gegn Hezbollah í suðurhluta Líbanon. Ísraelski herinn

Forvarsmenn ísraelska hersins hafa tilkynnt nýjar árásir gegn Hezbollah-samtökunum í suðurhluta Líbanon. Formaður herforingjaráðs Ísraels segist hafa samþykkt aðgerðaáætlun fyrir herinn í norðurhluta Ísrael.

Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvað felst í þessari aðgerðaáætlun en háværar umræður um mögulega innrás í Líbanon hafa átt sér stað innan stjórnvalda Ísrael á undanförnum dögum.

Sjá einnig: Her­foringi kallar eftir inn­rás í Líbanon

Fregnir hafa borist af umfangsmiklum loftárásum í Líbanon en þær hófust á öðrum tímanum í dag.

Herforingjar segja markmið þessara árása að grafa undan hernaðargetu Hezbollah og granda neðanjarðargöngum þeirra og byrgjum.

Þannig eigi að gera um sjötíu þúsund Ísraelum sem hafa þurft að flýja heimili sín í norðurhluta Ísrael kleift að snúa aftur heim. Meðlimir Hezbollah hafa gert tíðar árásir með eldflaugum og drónum á bæi og byggðir í norðanverðu Ísrael.

Þessar árásir koma í kjölfar þess að þúsundir símboða og talstöðva í notkun Hezbollah sprungu í loft upp í dag og í gær. Allt að þrjú þúsund manns særðust í þessum sprengingum.

Herþotur eru sagðar á flugi yfir Beirút, höfuðborg Líbanon.

Í ávarpi sem Hassan Nasrallah, æðsti leiðtogi Hezbollah, hélt í dag sagði hann mögulegt að kalla árásir síðustu daga stríðsyfirlýsingu. Hann gekk þó ekki svo langt að fullyrða að svo væri.

Hann hélt því einnig fram að leiðtogum Hezbollah hefðu borist skilaboð um að þeir ættu að hætta árásum sínum á norðanvert Ísrael. Hann sagði að það yrði ekki gert, fyrr en í fyrsta lagi eftir að Ísraelar hættu hernaði sínum á Gasaströndinni og Vesturbakkanum.

Nasrallah sagðist vonast eftir því að Ísraelar gerðu innrás í suðurhluta Líbanon. Hann hét því að slík innrás myndi ekki hafa þær afleiðingar að áðurnefnt fólk gæti snúið aftur til síns heima í Ísrael.


Tengdar fréttir

Talstöðvar springa einnig í Beirút

Degi eftir að fjölmargir símboðar í notkun meðal meðlima Hezbollah-samtakanna í Líbanon og Sýrlandi sprungu, gerðist það sama með talstöðvar þeirra. Sprengingar hafa átt sér stað víðsvegar um Beirút og annarsstaðar í Líbanon.

Símboðarnir sagðir koma frá ungversku skúffufélagi

Forsvarsmenn taívanska fyrirtækisins Gold Apollo, eins stærsta framleiðanda símboða heims, segjast ekki hafa framleitt tækin sem sprungu í Líbanon og Sýrlandi í gær. Þess í stað hafi tækin verið framleidd af ungversku fyrirtæki sem kallast BAC Consulting Kft. eftir að samningur var gerður milli fyrirtækjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×