Innlent

Deilt um „Pope Francis“ for­setans: „Óboðlegt og ó­skiljan­legt“ eða hneykslunargirni heilagra?

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Fjöldi fólks hefur tjáð sig um enskunotkun Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, í samúðarkveðju. Ekki eru allir á eitt sammála eins og fyrri daginn.
Fjöldi fólks hefur tjáð sig um enskunotkun Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, í samúðarkveðju. Ekki eru allir á eitt sammála eins og fyrri daginn.

Skiptar skoðanir eru um ákvörðun Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, að tala um Frans páfa sem Pope Francis. Meirihluti þeirra sem tjá sig virðist líta á enskunotkunina sem óboðlega. Aðrir telja fjaðrafokið til marks um hneykslunargirni ákveðins hóps.

Halla Tómasdóttir deildi samúðarkveðjum vegna fráfalls Frans páfa um eittleytið í dag. Þar sagði hún heiminn hafa misst „mikilvægan leiðtoga sem hafði kærleika og umhyggju fyrir þeim sem minnst mega sín ávallt í fyrirrúmi og hvatti til ábyrgrar forystu.“

Það sem vakti athygli var að Halla vísaði til páfans sem „Pope Francis“ á ensku í færslunni. Um klukkutíma síðar eftir að íslenskir fjölmiðlar höfðu fjallað um kveðju forsetans var búið að breyta „Pope Francis“ í Frans páfa.

Nú hafa ýmsir tjáð sig um enskunotkun forsetans, ýmist með Facebook-færslum eða ummælum við slíkar færslur.

„Vont og í raun alveg óboðlegt og óskiljanlegt“

Einn þeirra er Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, sem hefur í gegnum tíðina tjáð sig reglulega um íslenskt mál og gjarnan svarað umvöndunarseggjum og málfarsfasistum.

Eiríkur er ekki nógu ánægður með enskunotkun Höllu.Vísir/Arnar

„Það var vont og í raun alveg óboðlegt og óskiljanlegt að í opinberri færslu forseta Íslands skyldi vísa til Frans páfa með enskri gerð af nafni hans og embættisheiti,“ skrifar Eiríkur í færslu á Facebook-hópnum Málspjallinu.

„Sem betur fer var þessu breytt fljótlega en þetta sýnir að enskan laumar sér víða inn og nauðsynlegt er að vera alltaf á verði gagnvart óþarfri og ástæðulausri enskunotkun,“ skrifar hann jafnframt.

„Innilegar condolences til The Vatican“

Annar sem tjáir sig um enskunotkun forsetans er Illugi Jökulsson, rithöfundur og dagskrárgerðarmaður, sem fjallar gjarnan um málefni líðandi stundar á Fésbókarsíðu sinni.

Illugi er mikill Fésbókarmaður.

„Sko. Ég er sérstaklega umburðarlyndur maður. En þetta hefði President Tomas nú alveg getað gert betur. Hún hefði til dæmis getað syrgt fráfall „Franciscus Papa“ ef henni er af einhverjum ástæðum illa við að nota hið íslenska „Frans páfa“. Hvorki páfinn né páfastóll hafa neitt sérstakt með enska tungu að gera,“ skrifar hann í Facebook-færslu sem hefur vakið gríðarlega viðbrögð. 

Þegar þessi frétt er skrifuð hafa 233 brugðist við færslu Illuga og hafa 126 ummæli verið skrifuð við hana. Fjöldi fólks tekur þar undir orð Illuga.

Agli og Margréti finnst enskunotkun forsetans pínleg.

„Úff,“ skrifar Egill Helgason, fjölmiðlamaður og menningarpáfi, við færsluna og bætir svo við neðar: „Óbreyttur blaðamaður sem gerði þetta myndi aldeilis fá skamm í hattinn.“ Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur og formaður Rithöfundasambands Íslands, tekur í sama streng og skrifar: „Ó hvað þetta er innilega vont.“

Aðrir hæðist að Höllu, þar á meðal fornfræðingurinn Þorsteinn Vilhjálmsson sem skrifar: „Innilegar condolences til The Vatican.“

Mexico City, Mexíkóborg eða Ciudad Mexico

Einn sem skrifar ummæli við færsluna er Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor emeritus við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, en hann veitir Höllu gott ráð.

Hannes Hólmsteinn lærði góða lexíu hjá Jóni S. Guðmundssyni í lærða skólanum.

„Þegar ég var í þriðja bekk í MR (1968–1969), skilaði ég ritgerð og minntist á Mexico City. Jón S. Guðmundsson, íslenskukennari minn, benti réttilega á, að ég ætti annaðhvort að nota íslenska nafnið, Mexíkóborg, eða hið spænska, Ciudad Mexico. Ég lét mér þetta að kenningu verða,“ skrifar hann við færsluna.

Hugsanlega lætur Halla „Pope Francis“ sér að kenningu verða.

Niðurlægingarpílur úr skúmaskotum

Enn svo eru aðrir sem eru ósammála. Steinunn Ólína, leikkona og forsetaframbjóðandi, hæðist frekar að þeim sem skammast í Höllu en í sínum gamla keppinaut um forsetaembættið: „Hér tala þeir sem hafa vit á því hvernig rétt er að ávarpa fyrirfólk. Stórkostleg skemmtilesning!“ 

Steinunn Ólína laut í lægra haldi fyrir Höllu í forsetakosningunum 2024.vísir/arnar

Þá tekur Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt og fyrrverandi deildarforseti arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands, upp hanskann fyrir Höllu.

„Jesús, með fullri virðingu - það má alveg fá pínu krull í tærnar - en er þetta svona alvarlegt á stóra skalanum? Ég er ekki í vafa um að flestir viti að frú Höllu gangi gott eitt til í öllu hennar starfi. Má kannski óska þess að umræðunni sé lyft upp á ögn hærra plan eins og sumir gerðu forðum?“ skrifar Hildigunnur við færsluna.

Hildigunnur er arkítekt og hefur skrifað pistla í Víðsjá.

Í öðrum ummælum segir Hildigunnur að sér finnist skrýtið hvað fólk geri mikið úr málinu. Hana gruni að það sé til marks um „undirliggjandi afstöðu ákveðins hóps, fólks sem hefur að mestu unnið hér sína starfsævi, kemur af fólki sem hefur innrætt þeim málvitund byggða á ákveðnum málfarsfasisma - og ákveðnum innlendum menningarelítisma.“

Hún segir síðan að skoða þurfi viðteknar niðurlægingarpílur á forseta Íslands sem „mest eru skotnar úr einhverju skúmaskoti þess að þykjast betri en hún. Að hún sé ekki af „okkar“ tagi, þ.e. okkar menningarvitanna.“

„Segi mest um þá sem heilaga telja sig“

Önnur sem tekur upp hanskann fyrir Höllu er Vigdís Grímsdóttir, rithöfundur og kennari.

„Halla ræður sínum skrifum, held að hneykslunin segi mest um þá sem heilaga telja sig,“ skrifar hún í ummælum við deilingu á frétt Vísis um kveðjuna.

Vigdís telur hneykslan fólks segja meira um það en forsetann.

Henni svarar Gústaf nokkur Níelsson, sagnfræðingur og fyrrverandi frambjóðandi Íslensku þjóðfylkingarinnar: Auðvitað má hún skrifa hvað sem henni dettur í hug. Lakara er þó þegar samband á milli heila og fingra á lyklaborðinu rofnar, auk þess sem hún er forseti Íslands. Hún lærir sjálfsagt af þessu og um það er ekkert nema gott að segja.“

Hann hafði sjálfur skrifað síður uppbyggileg ummæli við færsluna sem hljóðuðu svo: „Við hverju má búast af konu sem þekkir ekki Gunnar á Hlíðarenda?“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×