Erlent

Neyðar­á­stand vegna skógar­elda í Portúgal

Samúel Karl Ólason skrifar
Slökkviliðsmaður að störfum í Portúgal.
Slökkviliðsmaður að störfum í Portúgal. AP/Bruno Fonseca

Yfirvöld í Portúgal lýstu í vikunni yfir neyðarástandi vegna rúmlega hundrað skógarelda sem loga víðsvegar um norðanvert landið. Þúsundir slökkviliðsmenn berjast við eldana en vitað er til þess að sjö hafi látið lífið vegna eldanna.

Luís Montenegro, forsætisráðherra, lýsti yfir neyðarástandi á þriðjudaginn á þeim svæðum sem hafa orðið hvað verst úti og getur ríkisstjórnin þannig beitt frekari auðlindum ríkisins til að berjast við eldana.

Um fimm þúsund slökkviliðsmenn berjast við eldana en samkvæmt frétt Reuters hafa Portúgalar einnig fengið liðsauka frá Spáni og Marokkó. Um 270 spænskir hermenn á jarðýtum hafa komið að björgunarstörfum og hafa tvær slökkviliðsflugvélar frá Marokkó verið notaðar, auk þess sem tvær til viðbótar eru sagðar á leiðinni.

Þær flugvélar eru til viðbótar við tvær frá Spáni, Ítalíu og Frakklandi, í heildina sex. Þar að auki eru miklar vonir bundnar við kólnandi veður næstu daga, þó talið sé að veðrið muni lítið hjálpa til lengri tíma.

Tugir heimila hafa brunnið og ógna eldarnir heimilum um 210 þúsund manna til viðbótar, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Embættismenn segja eldana þá umfangsmestu í Portúgal frá 2017 þegar tveir stærðarinnar eldar bönuðu rúmlega hundrað manns. Talið er að einhverjir eldanna hafi verið kveiktir af brennivörgum og hefur Montenegro heitið því að hafa hendur í hári þeirra og refsa þeim.

Nú þegar er búið að handtaka tólf manns frá því á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×