Erlent

Ástandið í Írak versnar sífellt

Einn af íbúum Bagdad sem særðist í sprengjuárás. Skýrslan segir að meira verði að gera til þess að vernda almenna borgara í Írak.
Einn af íbúum Bagdad sem særðist í sprengjuárás. Skýrslan segir að meira verði að gera til þess að vernda almenna borgara í Írak. MYND/AFP
Alþjóðanefnd Rauða krossins segir að aðstæður Íraka séu sífellt að versna. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá henni. Skýrslan segir að meira verði að gera til þess að vernda óbreytta borgara í landinu. Í henni er meðal annars rætt við íraska konu sem vill helst fá hjálp við að safna saman líkum af götum Bagdad á morgnanna.

Rauði krossinn er ennþá með starfsemi í Írak þrátt fyrir að skrifstofur hans hafi orðið fyrir árás fyrir þremur og hálfu ári síðan. Skýrslan bar upp spurninguna hvernig væri hægt að hjálpa almennum borgurum þar í landi og voru þeir sjálfir spurðir álits. Niðurstöðurnar eru ógnvænlegar.

Í ljós kom að mæðrum finnst fátt erfiðara en að fara með börn sín í skólann þar sem þær eru hreinlega ekki vissar um að sjá þau aftur í lok dagsins. Einnig er sagt frá því að áður hversdagsleg verkefni, eins og að fara á markaðinn og kaupa í matinn, séu nú lífshættuleg.

Aðgangur að hreinu vatni og rafmagni er líka takmarkaður. Svo erfitt er að uppfylla slíkar grunnþarfir að fólk er farið að einbeita sér að einfaldari verkefnum, eins og leita hjálpar við að safna saman líkum á morgnanna.

Rauði krossinn kennir þó engum um ástandið en leggur áherslu á að allir aðilar sem starfa í Írak verði að gera meira til þess að vernda og aðstoða almenna borgara þar í landi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×